143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi kröfurnar frá Eftirlitsstofnuninni, ESA, hygg ég að hugmyndir um að draga úr áhrifum niðurskurðarins á Ríkisútvarpið með því að gera því ekki að stofna sérstakt dótturfélag gæti orðið til þess að við uppfylltum ekki þau skilyrði sem sett hafa verið og það yrði litið á þetta sem ólögmæta ríkisaðstoð. En ég held að það sé ákaflega brýnt fyrir okkur hér á hinum pólitíska vettvangi að ræða það hvernig er hægt að búa þannig um Ríkisútvarpið að ekki megi búast við pólitískum afskiptum á ári hverju í gegnum fjárveitingar til þess.

Við höfum ákveðið fyrirkomulag sem við höfum samþykkt þar sem gerðir eru samningar sem ná yfir næsta kjörtímabil þannig að ákveðnir þættir í samfélaginu eru nokkuð varðir á komandi kjörtímabili og það þarf þá aðrar þingkosningar til að gera einhverjar breytingar þar á og það er spurning hvort slíkir langtímasamningar gætu með einhverjum hætti tryggt stöðu Ríkisútvarpsins.

Ég átti í dag nokkur orðaskipti við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um Náttúrugripasafnið sem fyrirhugað var að koma upp í Perlunni. Það hefur verið okkur mjög til vansa, Íslendingum, að hafa ekki slíkt safn sem ferðamenn geta sótt í og skólabörn til að fræðast og dapurlegt að þurfa að heimsækja náttúrugripasöfn í öðrum löndum til að sjá íslenska náttúrugripi í útstillingum, svo sem eins og á náttúrugripasafninu í Berlín.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvað geri það að verkum að fallið er frá þessari hagkvæmu lausn í samvinnu við Reykjavíkurborg. Eru þetta einhvers konar pólitískar hefndaraðgerðir hér úr borgarstjórninni eða hvað telur þingmaðurinn að sé á bak við þetta?