143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég reikna með því hvað varðar vangaveltur hans um ESA og frestun á stofnun dótturfélags, að menntamálaráðuneytið hljóti að hafa upplýst Eftirlitsstofnun EFTA um það ef þetta er fyrirhugað. Ég á því ekki von á öðru en að þau samskipti séu í greiðum farvegi, en ég vænti þess líka að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi fjallað um það. Mér skildist að fallist hefði verið á það að fjalla um þær fjárlagatillögur og tekjuöflunartillögur sem varða hv. allsherjar- og menntamálanefnd á fundi hennar, þannig að ég vænti þess að þar hafi verið spurt náið út í þetta. Ég á nú ekki von á öðru en að menntamálaráðuneytið sé með þessi mál undir styrkri stjórn.

Það sem ég vil svo segja um málefni Náttúruminjasafns þá er það auðvitað með hreinum ólíkindum, því að ég stóð nú ekki sjaldan hér í þessum ræðustól og hlýddi á harðorða gagnrýni, ekki síst hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að ekki væri verið að uppfylla lögbundnar skyldur sem hefðu verið lagðar á stjórnvöld með lögum um Náttúruminjasafn, að þar væri ekkert sýningarhald og hvað ég ætlaði nú að gera í því. Og mikil vinna var lögð í að reyna að finna leiðir sem væri hægt að fara í, væru framkvæmanlegar á tímum sem öllum var ljóst að við höfðum ekki fjármagn til að fara í glæsilegar margra milljarða nýbyggingar, sem auðvitað væri spennandi kostur fyrir slíkt safn.

Þegar sú hugmynd kom upp, og hún kom nú ekki síst utan úr samfélaginu, að leigja Perluna til sýningarhalds fyrir þá muni sem við eigum og hanna þar sýningu fyrir lágmarkstilkostnað, þá fórum við í það. Við fórum í það að gera leigusamning við Reykjavíkurborg, fórum í það að setja inn í fjárfestingaráætlun 400 millj. kr. á þessu ári sem áttu að renna til stofnkostnaðar og 100 millj. kr. á því næsta. Lagt hefur verið til að bakkað sé út úr þessu af því að skyndilega hefur áhugi þessara hv. þingmanna greinilega algjörlega horfið þó að allir viti að aðsókn á náttúruminjasöfn er gríðarlega mikil. Þetta hefur skort í samfélagi okkar lengi og er mikilvægt eins og hv. þingmaður sagði bæði fyrir skólabörn og ferðamenn.