143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi snemma í ræðu sinni að fólk sem maður talaði við rétt eftir hrun hefði oft spurt hvað við hefðum lært og vonaði að við hefðum lært eitthvað. Það er ýmislegt sem má læra af þessu hruni og það sem ég lærði persónulega af því er að gera ekki ráð fyrir því að allt sé alltaf frábært, sérstaklega þegar um er að ræða lítið land sem er ekki með sérlega mikla innlenda framleiðslu. Það stóðst einfaldlega ekki hvað hér var mikið svokallað góðæri, eða bólumyndun eins og það var raunverulega.

Hvaða lexía telur hv. þingmaður að hafi verið mikilvægust, sérstaklega í ljósi þess — eins og ég hef oft sagt hef ég aldrei verið sérstakur vinstri maður en ég gat ekki annað en tekið eftir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var hvað ötulust í því að vara við löngu fyrir hrun og því velti ég sérstaklega fyrir mér hvaða lexíu (Forseti hringir.) hv. þingmaður telur mikilvægasta.