143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, við þurfum að forðast það. Ég bíð samt enn þá eftir því að hitta sjálfstæðismann, kjörinn fulltrúa, sem talar fyrir náttúruvernd. Ég hef bara ekki hitt hann því það kemur alltaf: Við þurfum að búa í þessu landi og við þurfum að nýta það o.s.frv., það kemur alltaf neðanmálsgrein. Menn geta aldrei talað fyrir náttúruvernd. Náttúruvernd er forsenda nýtingar. Það er ekki hægt að nýta náttúruna með ábyrgum hætti öðruvísi en að vernda hana. Það snýst ekkert um það að vera yfir hafinn, (ValG: Þetta er pólapólitík.) það snýst um það að bíða þolinmóð eftir því að heyra einn einasta kjörinn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins tala fyrir náttúruverndarsjónarmiðum.(Gripið fram í.)