143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér þótti áhugavert að við erum komin með aðila sem hefur löggiltan rétt til að meta það hverjir tali fyrir náttúruvernd í landinu. Ég held að við fögnum því að sá aðili er kominn fram, og í bestu hógværð og auðmýkt vonumst við til að fá góða einkunn hjá hv. þingmanni því að hér er auðvitað um það að ræða að enginn annar getur metið það hver talar fyrir náttúruvernd en sjálfur hv. þm. Svandís Svavarsdóttir. Það segir sig sjálft.

Ég er með tvær spurningar til hv. þingmanns. Annars vegar talar hv. þingmaður mjög gegn sjúklingagjöldum, sem ég skil ekki af hverju sá áhugi er nýtilkominn þar sem síðasta ríkisstjórn hækkaði sjúklingagjöld bæði hlutfallslega og á spítölum verulega.

Hins vegar varðandi fjárfestingaráætlunina sem talað er um að sé svo fagleg. Er hv. þingmaður að halda því fram að fjárfestingaráætlunin sem snýr að Náttúruminjasafni og Perlunni sé faglega unnin? Hvaða verðmæti mun sá gjörningur skapa?