143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á að heyra í hv. þingmanni hvernig hann sér fyrir sér að við búum um Náttúruminjasafnið á Íslandi, hvort hann telji að það eigi að gera yfir höfuð í fyllingu tímans eða eitthvað slíkt, vegna þess að ég er alveg sannfærð um að þarna er á ferðinni fjárfesting í þágu menntunar og fjárfesting í þágu ferðaþjónustu. Það er vandræðalegt ef við ætlum að sjá íslenska náttúruminjasafnið að þurfa að gera það í útlöndum.

Varðandi sjúklingaskattinn og hækkun á honum undanfarin ár þá er það rétt að hlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni hefur vaxið undanfarin ár. Það á sér ýmsar samsettar skýringar en mér finnst sannarlega, herra forseti, það ekki gefa tilefni til að gefa enn meira í. Finnst hv. þingmanni það vera tilefni til að gefa enn meira í og finna fleiri matarholur hjá veikasta fólkinu í landinu?