143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér talaði helsti niðurskurðarmeistari ríkisstjórnarinnar og gerði grein fyrir þeim hugmyndafræðilegu punktum sem liggja að baki tillögum hans. Af því sem ég skildi hv. þingmann þá get ég sagt honum að ég var sammála ýmsu, ég var sammála meginmarkmiðunum eins og til dæmis því að ná hallalausum fjárlögum. Sömuleiðis er ég algerlega sammála honum um að það er stöðug glíma. Það er hlutverk þingsins og fjárlaganefndar að standa þá glímu og standa í lappirnar.

Þess vegna vil ég þakka honum sérstaklega fyrir það að hrósa fyrri ríkisstjórn fyrir frammistöðu í því máli. Hann lýsti því með tölum hvernig framúrkeyrsla stofnana hefði í hennar tíð farið úr um 27%, í tíð ríkisstjórnar þeirra tveggja flokka sem nú eru aftur teknir til valda, niður í 20% í lok kjörtímabilsins þar sem Samfylking og Vinstri grænir voru við völd. Það er hrósvert hjá hv. þingmanni að benda sérstaklega á það.

Okkur greinir á í hugmyndafræðilegum efnum. Ég sat með hv. þingmanni í ríkisstjórn og get alveg fallist á það að hann hafði þar lofsvert frumkvæði að ýmsu, til dæmis þátttöku í norrænum lyfjamarkaði sem sú ríkisstjórn sem síðast tók við reyndi að fylgja eftir. En það sem hv. þingmaður lagði hér fram sem rök fyrir því að leggja á sjúklingaskatt er einhver versta röksemdafærsla sem ég hef heyrt vegna þess að ríkisstjórn sem tók við búi eftir mikla kreppu þurfti að gera allt sem hægt var til að loka fjárlagagati, átti meðal annars þátt í því að þeir sem þurftu að leita á náðir kerfisins þurftu að greiða meira en áður. Það er um það bil versta röksemdin til að halda því fram að rétt sé af því tilefni að fara og leggja nú á sjúklingaskatta.

Það sem vantaði í þessa ræðu hv. þingmanns var framtíðarsýnin. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að stuðla að því að til verði blómstrandi nýjar atvinnugreinar til að skapa verðmætin svo að við getum staðið straum af bættu samfélagi? Það vantaði í annars skelegga ræðu hv. þingmanns.