143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég deildi á varðandi ræðu hv. þingmanns var að mér fannst skorta framtíðarsýn. Það er í sjálfu sér stefna sem byggir á hugmyndafræði eða þörfum þegar ríkisstjórn fer svona harkalega eins og núverandi ríkisstjórn gerir í fjárfestingaráætlun. Hún sker niður allar þær hækkanir sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að beita sér fyrir og var búin að afla fjármagns til; í stuðning við sprota, í hönnun, í tónlistarsköpun, í menningu. Þó vitum við hvað þetta er að verða snar þáttur í framleiðslu verðmæta í framtíðinni.

Það væri hægt að verja þetta ef hæstv. ríkisstjórn hefði stefnu. Rétt er að vissulega virtist hún hafa stefnu. Hún ætlaði að skapa verðmætin með stóriðju. Það blasir þó við að engin stóriðjuverkefni eru á borðinu nema þau sem voru hafin í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það eina mál sem hún hengdi sinn barðastóra hatt á, Helguvík, hún er búin að klúðra því. Hvernig ætlar þá hæstv. ríkisstjórn að búa til verðmæti og leggja sprota fyrir þá verðmætaframleiðslu inn í framtíðina? Með engu miðað við ræðu hv. þingmanns.