143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta. Það er auðvitað oft þannig að þó að maður hafi 40 mínútur þá nær maður ekki að klára allt; og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þennan þátt fyrir sem ég ætlaði einmitt að fara í og láðist að gera í ræðu minni.

Í fyrsta lagi mun núverandi ríkisstjórn ekki búa til neitt verðmæti. Það er fólkið í landinu sem býr til verðmætin. Ég veit að það er fullt af stjórnmálamönnum sem telja sig þess umkomna að bjarga öllu en það er fólkið sem býr til verðmætin og við þurfum að skapa aðstöðu til þess.

Fjárfestingaráætlunin var því miður þannig — við erum ekki að taka við hallalausum fjárlögum heldur með gríðarlegum halla og síðan var útdeilt gjöfum til fólks sem engar innstæður eru fyrir, þetta voru gúmmítékkafjárlög. (Gripið fram í: Ertu að tala um leiðréttinguna?) Ég tók eitt dæmi sem mér finnst nú grófast og er þá að vísa í þann þátt sem snýr að Perlunni, og var tengdur við gott mál sem er Náttúruminjasafn. Þar er skelfilega farið með opinbert fé og ég ætla rétt að leyfa mér að vona að við náum að stöðva það.