143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann sem þekkir þessi mál mjög vel til að upplýsa það af hverju fólk fer á spítala. Það er ekki þannig að menn fari í göngudeildarþjónustu vegna þess að þeir hafi ekkert annað að gera. Það er ekki eins og menn fari á slysó vegna þess að þeir hafi ekkert annað að gera, það sé bara leið til að eyða deginum. Það er ekki þannig. Það er ekki þannig að menn greiði fyrir lyf vegna þess að þau séu einhver vara sem þeir vilji sérstaklega fá.

Nú var innheimta á spítalanum stórhert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gengið hart að þeim sem hafa lágar tekjur eða eru með einhverja þannig stöðu, ég veit ekki til þess. En innheimtan var stórhert og hún hefur skilað miklu meiru en hún gerði áður. Ég ætla ekki hv. þingmanni það eða neinum þingmanni að hafa einhvern sérstakan áhuga (Forseti hringir.) á því að vera vondur við þá sem minnst mega sín en þetta snýst bara um það hvernig við vinnum þetta verkefni sem best þannig að það sé sem réttlátast.