143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fannst nú fallegt að heyra hv. síðasta ræðumann ljúka ræðu sinni á því að segja að hann gengi ekki út frá því að öldrunarlæknirinn hefði ekki almennt sæmilega hlýjan hug til skjólstæðinga sinna. Mikið fannst mér það hlýlega sagt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Úr því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er nefndur á nafn er sennilega rétt að taka fram, vegna ummæla hans hér í ræðu, að sá sem hér stendur hefur marglýst ánægju sinni með að stefnt sé að hallalausum fjárlögum á næsta ári og fjárlögum með afgangi. Ætti það ekki að þurfa að koma á óvart því að að því hefur verið nokkuð unnið undanfarin ár, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætti svo sem að hafa einhverja þekkingu á. Sú staða hefur ekki komið fyrirhafnarlaust að það er yfir höfuð raunhæft að stefna að því að reyna að loka hallalausum fjárlögum á Íslandi fyrir árið 2014 og hefði kannski einhverjum ekki boðið það í grun þegar við stóðum með ríkissjóð í höndunum með 217 milljarða halla á árinu 2008, halla sem stefndi í 150–170 milljarða hið minnsta án aðgerða 2009, endaði í 140, halla sem fór yfir 120 milljarða 2010. Menn heyra fljótlega hversu svakalegar tölur þetta eru. Að við séum núna að pexa um hvort hallinn endar í 19,8 milljörðum eða eitthvað meira eða minna, jú jú, það er gilt umræðuefni en það er ágætt að muna eftir því að við erum þó að tala um að stærðargráðu minni tölur en við vorum fyrir tveimur, þremur árum síðan. Það eru auðvitað gríðarleg tímamót að það skuli vera raunhæft að svo mikið sem setja það á blað að við verðum með hallalaus fjárlög og einhvern örlítinn afgang árið 2014 eru og þeim tímamótum ber að fagna.

Það hefur ekki komið af sjálfu sér og hefur víða þurft að færa umtalsverðar fórnir á þeirri vegferð. Auðvitað eru það fyrst og fremst þeir sem njóta samneyslunnar og opinberrar þjónustu, þeir sem vinna í þeim geira sem mestar byrðar hafa borið í þeim efnum, en auðvitað líka allur almenningur í þessu landi. Það má líka segja að það hafi reynst kosta nokkrar pólitískar fórnir að koma málum í þetta horf og vísa ég þá til síðustu þingkosninga. En þá verður bara að hafa það, aðalatriðið er að okkur miðar í rétta átt.

Ég gerði stóru myndina og horfurnar í þessum efnum að umtalsefni í fyrri ræðu minni, herra forseti, og ætla ekki að fjölyrða mikið um það. Það er þó ástæða til þess, vegna þess hvernig málflutningur gengur hér, að draga aðeins upp og rifja upp þá mynd sem er að leggjast varðandi tekjugrunn ríkisins. Um leið og ég fagna því að stefnt sé að hallalausum fjárlögum á næsta ári hef ég auðvitað líka miklar áhyggjur af ríkisfjármálahorfunum til meðallangs tíma og hefur allt of lítil umræða að mínu mati farið fram um það mál. Það hefur aðeins komið til orðaskipta milli mín og hæstv. núverandi fjármála- og efnahagsráðherra um það mál en að öðru leyti hef ég ekki heyrt miklar umræður um það, því að það skiptir fleira máli en bara það að ná þessu saman á pappírunum fyrir árið 2014. Hvernig líta mál út árin eftir það? Ef við notum orðalagið „til meðallangs tíma“ um næstu fjögur ár, eins og gert hefur verið í áætlanagerð undanfarin nokkur ár, frá 2009, þ.e. árin 2014, 2015, 2016 og 2017, þá liggur framreikningur fjármálaráðuneytisins fyrir í þeim efnum og hann sýnir alveg sótsvarta mynd. Sjálfur hefur fjármála- og efnahagsráðherra sagt hér í svari við mig að þetta sé óásættanlegt og í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, í litla heftinu, stendur hið sama, að þessar framtíðarhorfur í ríkisfjármálum séu óásættanlegar, að við séum með afkomuna algerlega í járnum næstu fjögur árin og reyndar á hún samkvæmt þessum framreikningi að versna aftur milli áranna 2015 og 2016 og 2016 og 2017.

Af hverju? Jú, vegna þess að þá hverfa út tekjur sem ríkissjóði voru tryggðar á síðasta kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn hefur engan lit sýnt í því að viðhalda tekjugrunni ríkisins að þessu leyti. Í kreppunni voru settir inn tekjustofnar til nokkurra ára og boðað að þeir yrðu svo endurskoðaðir. Í öllum tilvikum stóð að kæmi til breytinga á þeim til lækkunar yrði að gera mótvægisaðgerðir þannig að ríkisfjármálaáætlunin héldi, það hefur alltaf legið fyrir. Ef menn lækka eða fella niður auðlegðarskatt raskast ríkisfjármálaáætlunin nema gerðar séu jafngildar ráðstafanir á móti, annaðhvort með nýrri tekjuöflun eða sparnaði. Þannig hefur dæminu verið stillt upp.

Ef við förum nú aðeins yfir það hvað tínist út á næstu árum þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að lækka sérstakt veiðigjald á sjávarútveginn þrátt fyrir hina glimrandi góðu afkomu hans og kostar yfir 3,2 milljarða á þessu ári, 6,4 líklega á næsta ári. Hún hefur ákveðið að falla frá því að færa virðisaukaskatt á hótelgistingu og gistiþjónustu úr 7% í 14%, sem kostar væntanlega milli 500 og 600 millj. kr. á þessu ári vegna aukinna umsvifa í greininni frá því sem við áætluðum fyrir ári síðan, og þá væntanlega vel 2 milljarða á ársgrundvelli 2014. Ríkisstjórnin hefur þar til viðbótar ákveðið að lækka traustasta og stabílasta tekjustofn ríkis í hverju landi, tekjuskattinn, um 5 milljarða. En það er ekki tekjulægsta fólkið í landinu sem á að fá það, nei, það eru millitekjuhóparnir og þeim mun meira sem þeir liggja ofar í launastiganum, vegna þess að notuð er sú aðferð að færa niður prósentuna en ekki t.d. rýmka fjárhæðarmörkin, sem þýðir að þeir fá mest sem eru alveg uppi undir hátekjuþrepi með um 700 þús. kr. á mánuði út úr þeirri skattalækkun, 5 milljarðar farnir þar. Og þeir fara ekki bara á næsta ári heldur líka 2015, 2016 og 2017 ef að líkum lætur.

Sama gildir um minni tekjur af veiðigjöldum, þau fara ekki bara út í ár og á næsta ári heldur 2015, 2016 og 2017. Sama gildir um minni tekjur af virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Það fer ekki bara út í ár og á næsta ári heldur 2015, 2016 og 2017. Svo kemur auðlegðarskattur, tekjustofn upp á 9 milljarða kr., hann dettur út, hann verður núll 2015 — núll, það má nú á milli vera. Sama gildir um orkuskatta, jafnvel kolefnisgjald, ég veit það ekki, ég held þó að við höfum náð að gera það ótímabundið. Boðað er að þeir falli niður líka og þessu er stillt upp í framreiknaðri ríkisfjármálaáætlun, sem ekki er hægt að kalla áætlun, því miður. Það leiðir til þess að strax á árinu 2015 er tekjugrunnur ríkisins yfir 20 milljörðum veikari en hann er í ár og munar um þá fjárhæð. Ætli menn komi svo ekki hérna með brauðmolahagfræðiruglið sitt og segi að þetta vinnist allt upp með allt öðrum hætti? Hvar hefur það gengið eftir? Það er ekki þannig.

Þetta er hið stóra áhyggjuefni en í sjálfu sér er ýmislegt í þessu fjárlagafrumvarpi sem vekur manni mikla undrun. Ég tel það í raun og veru algerlega illskiljanlega ráðstöfun að láta ekki aðeins meiri tekjur standa eftir á meðan afkoma sjávarútvegsins er jafn glimrandi góð og raun ber vitni. Ég tel það stórfurðulegt að menn skuli ekki hafa manndóm í sér og raunsæi til þess, hvað sem menn sögðu á síðasta kjörtímabili eða hvernig sem þeir eru tengdir hagsmunum í þessu samfélagi, að taka þá frekar auðlegðarskattinn og skoða breytingar á honum, koma þá til móts við það sem þeir telja vera málefnalega gagnrýni á hann, sem má segja að hafi a.m.k. í einu tilviki verið alveg efnisleg, þ.e. að ef stór hluti auðlegðarskattstofns einstaklings eða hjóna liggur í skuldlausu íbúðarhúsnæði þeirra, sem menn hafa þá ekki aðrar tekjur af, þá geti skatturinn verið þungur.

Hvað er hægt að gera við því? Það er hægt að búa til sérstakt frítekjumark vegna skuldlausrar eignar í íbúðarhúsnæði. (Gripið fram í.) Ég er að leggja það til., hv. frammíkallandi, og þegar breytingartillögur við þingmál nr. 2 koma fram sýni ég slíkar lagfæringar eða breytingar á þessum skatti, sem mundu kannski kosta 1 til 1,5 milljarða í tekjutapi í mesta lagi, en eftir stæðu 8–9 milljarðar í ríkistekjur á árinu 2015. Munar ekki um það? Hvað segja stjórnarliðar sem staðið hafa í þeim ömurlegu sporum undanfarna daga að reyna að skrapa saman aurum í heilbrigðiskerfið til þess að bæta upp fjárlagafrumvarpið, sem var náttúrlega alveg út úr kú eins og það sneri að heilbrigðismálunum með áframhaldandi eða nýjum niðurskurði (VigH: Arfur frá ykkur.) í heilbrigðismálum? Kostulegt að frumvarpið skyldi koma þannig fram.

Já, þá þarf að fara í það. Svo átti að skerða barnabætur, síðan hættu menn við það og færðu þá skerðingu að mestu leyti yfir í vaxtabætur, þróunaraðstoð og hjóluðu enn hrottalegar í Ríkisútvarpið og þar fram eftir götunum. Þetta eru væntanlega ekki auðveld spor sem stjórnarliðar leggja á sig í þessum leiðangri. Er það þá virkilega þannig að menn vilji þetta frekar en að velta því fyrir sér að mæta þessum erfiðleikum a.m.k. að einhverju leyti með tekjuöflunaraðgerðum eða bara því sem hefði nú ekki átt að vera svo erfitt, að viðhalda í ríkari mæli þeim tekjum sem aðrir voru búnir að taka á sig að tryggja ríkissjóð? En sú leið er ekki valin.

Mér finnst uppstillingin í þessum málum líka alveg óskaplega dapurleg, ég fór yfir það áður, virðulegur forseti. Það er alveg yfirgengilegt og reyndar rangt að hluta til, t.d. þegar skerðing á þróunaraðstoð, þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð er tengd við það að tekjur af sérstöku veiðigjaldi hafi ekki skilað sér. Það er í fyrsta lagi rangt, það var aldrei rætt um tekjur af sérstöku veiðigjaldi í sambandi við aukin framlög til þróunaraðstoðar, það var bara aldrei gert. Það var fjárfestingaráætlun sem byggði að hluta til á viðbótartekjum af veiðigjöldum umfram þá 9–10 milljarða sem reiknaðir höfðu verið inn í langtímaríkisfjármálahorfur, þannig að allt sem veiðigjöld í heild gáfu, yfir um 9,5 milljarða, töldum við geta talið okkur til tekna og nýtt sem tekjustofn inn í annan hluta fjárfestingaráætlunar, fyrst og fremst þann sem var tengdur samgöngumálum, rannsóknum og þróun og sóknaráætlun. Tekjur af arðgreiðslum og eignasölu og öðru slíku voru síðan meira eyrnamerktar hinum hluta fjárfestingaráætlunarinnar. Þannig var það.

Hér hafa menn því ekki verið nógu vel upplýstir eða eru bara næstum því vísvitandi, ég vil nú ekki segja af illkvittni, að véla meiri hlutann til þess að setja svona ömurlegan texta eins og þennan inn í breytingartillögur sínar, að í fjárlögum fyrir árið 2013 hafi framlög til þessa málaflokks, þ.e. þróunarmála og alþjóðlegrar hjáparstarfsemi, verið aukin um 1 milljarð kr., m.a. með hliðsjón af verulegri hækkun af veiðigjaldi á sjávarútveg sem þá var áformuð, stendur hér — hún var ekkert áformuð, hún var þegar samþykkt — og annarri nýrri tekjuöflun. Það er rangt og þetta stenst ekki hvað varðar tenginguna við veiðigjöldin. Hvernig ætli mönnum líði sem lesa þetta? Hvað ætli vandaðir og málsmetandi forsvarsmenn stöndugra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi hugsi þegar þeir lesa þennan texta: Nú, er það svona? Lækkunin á veiðigjöldunum á okkur, heyrðu, það er hún sem leiðir til þess að skorin er niður aðstoð við fátækasta fólkið í heiminum.

Mér finnst hér vera á ferðinni áburður á útgerðina, sem ég er nú kannski ekki daglega sérstakur skjöldur fyrir eða varnaraðili að sumra dómi, mér finnst þetta ósmekklegt og ómaklegt og þetta er rangt, þetta er ekki svona auk þess sem allar svona uppstillingar eru barnaskapur, að taka eina krónu hér og merkja hana annarri krónu þar. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði um það. Fjármálaráðherra situr ekki við kassann og tekur á móti krónum úr tiltekinni átt og merkir þær og segir: Þær eiga að fara þangað. Það er ekki svoleiðis. Í grunninn koma tekjur inn í ríkissjóð og gjöld fara út úr honum. Punktur.

Það eru nokkur atriði í þessu máli sem ég hafði ekki tíma til í fyrri ræðu minni að ræða sem ég vil nefna hér þar sem ég tel alveg sérstaklega dapurlega komið fyrir okkur. Það er í fyrsta lagi meðferðin á fjarskiptasjóði, að hann skuli ekki fá að halda óskertum þó þeim tekjum sem honum voru merktar með útboði á fjarskiptarásum og Alþingi samþykkti hér í góðri samstöðu lög sem framlengdu starfstíma sjóðsins og fólu honum að sinna áfram sínu mikilvæga verkefni að bæta fjarskiptamál á þeim svæðum landsins þar sem þau eru óviðunandi og markaðurinn býður ekki upp á fullnægjandi úrlausn. Menn vissu alveg hvað þeir voru að gera í þessum efnum en nú ætlar ríkisstjórnin að ná sér þarna í 150 milljónir og taka þær í ríkissjóð. Það er í hróplegu ósamræmi við það sem allir hafa væntanlega heyrt alls staðar á ferðum sínum um landið, þeir þurfa ekki að vera þingmenn landsbyggðarkjördæma til þess.

Ég hygg að allir hafi nú þá þekkingu að þeir viti hvers konar ofboðsleg hindrun það er fyrir þátttöku í nútímasamfélagi og allri þróun og búsetu að hafa ekki fullnægjandi fjarskiptasamband. Það er ekki gott að menn skuli þá leggja upp í þann leiðangur í orði sem menn segjast vera að fara í, það sé einhver áætlun í smíðum uppi í innanríkisráðuneyti, en upphafið að þeirri vegferð er að skerða tekjur sjóðsins sem á að standa í þessum verkefnum. Menn benda hér á fjárhagsleg vandræði fyrirtækisins Farice og það er alveg rétt, þar lentum við í verulegum hremmingum því að það fyrirtæki fékk á sig mikið högg eins og aðrir þegar hér hrundi allt. Búið var að ráðast í mjög mikla fjárfestingu, sem er reyndar mjög mikilvæg fyrir landið og stórbætir gagnaflutninga til og frá Íslandi, sérstaklega lagning sæstrengsins Danice, sem þeir verða auðvitað að bera ábyrgð á sem tóku ákvörðun um það á sínum tíma. Menn veðjuðu á það að gagnaiðnaðurinn mundi vaxa það hratt úr grasi hér að það yrðu flutningar í vaxandi mæli á þessum streng og hann yrði fljótlega arðbær. Það hefur látið á sér standa.

Hvað var hægt að gera? Það var ekkert annað að gera en að takast á við það að við verðum að hafa þessa innviði. Ekki ætlum við að fara að klippa á strenginn eða láta bjóða hann upp. Nei. Þetta er hluti af grunnfjarskiptaneti landsins, sæstrengirnir eru það alveg eins og ljósleiðarinn, koparinn og örbylgjusamböndin, og við áttum engan annan kost en að fara í að endurfjármagna fyrirtækið. Mætti nú segja ýmsar sögur af því og viðræðum okkar við Færeyinga og fleira um þau mál. En það mega þeir aðilar eiga sem stóðu að okkur með þessu verkefni, þ.e. Landsvirkjun og Arion banki, að þeir hafa lagt sitt af mörkum, og ríkið. Landsvirkjun og Arion banki hafa tryggt framhaldslíf þessa fyrirtækis sem getur vel átt eftir að verða gullkvörn ef gagnaiðnaðurinn tekur betur flugið og þjónustan við strengina vex. Það er því engin afsökun fyrir því að við getum ekki jafnframt látið fjarskiptasjóð starfa og sinna hlutverki sínu. Það er í raun tímabundið óhjákvæmilegt að leggja í þá innviði.

Ég ætla að fá að trúa því, herra forseti, að við förum ekki heim af þessu þingi, hvorki fyrir jól né gamlársdag eða hvenær sem það verður nú, fyrr en t.d. fjárlagaliður eins og Brothættar byggðir er kominn inn aftur. Ég bara trúi því ekki að menn ætli að heykjast á því núna að hafa eins og 50 milljónir til ráðstöfunar í það verkefni sem búið er að leggja mikla vinnu í og er á fullu skriði í samstarfi Byggðastofnunar og viðkvæmustu byggða landsins. Byggðastofnun hefur m.a. fengið til þess tiltekinn pott veiðiheimilda og aðstoðar sjávarbyggðirnar í þessum flokki. Það þarf að sjálfsögðu að geta haldið verkefninu áfram og til þess þarf einhverja fjármuni. Þessu fólki er bara gefið langt nef ef það hverfur út úr fjárlögum ársins.

Ég ætla að nefna líka einn lið þó að hann sé kannski kominn nær mér sem þingmanni Norðausturkjördæmis, það er nám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri, sem er búið að byggja þar upp. Nú er þannig búið að háskólanum í þessu frumvarpi að boðað er að hann neyðist til þess að leggja námið niður, þ.e. að taka ekki inn nýja nema, nema hann fái betri úrlausn í fjárlögum.

Um norðurslóðamálin hefur ríkt mikil samstaða og ég sé það að í áherslum nýrrar ríkisstjórnar er norðurslóðamálum gert mjög hátt undir höfði. Ég hef heyrt hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson halda ræðu á erlendri grundu, sem átti nú reyndar að vera um stöðu Norðurlandanna í Evrópu, en hún fjallaði öll um áherslur Íslands í norðurslóðamálum. Það var þá bara fínt, mér var alveg sama, ég hafði gaman af því. En hvernig stendur þá á því að ríkisvaldið ætli ekki að styðja við þetta þar sem við höfum, að ég taldi, fyrir löngu tekið í góðri samstöðu pólitíska ákvörðun um það að þungamiðja uppbyggingar okkar á þessu sviði sé á Akureyri. Þar er Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, þar eru stofnanir heimskautaráðsins, PAME og CAFF, þar er Háskólinn á Akureyri með ýmsar námsbrautir sem tengjast heimskautamálunum, norðurslóðamálunum og þar var verið að byggja upp af miklum metnaði nám í heimskautarétti á lögfræðisviði. (VigH: Hvað með HÍ?) Ég trúi því illa að menn ætli að láta það daga uppi.

Auðvitað væri hægt að nefna margt fleira eins og sóknaráætlanir landshlutanna. Ég var á fjórðungsþingum bæði Austfirðinga og í Eyþingi fyrir norðaustanvert landið. Þar var hæstv. forsætisráðherra ræðumaður á báðum þingunum, enda er hann fyrsti þingmaður kjördæmisins. Hann talaði mjög jákvætt og vel um sóknaráætlanirnar og sama gerðu yfirleitt allir þingfulltrúar, þeir fögnuðu því nýja verklagi að færa völd og áhrif og fjármuni út á svæðin þar sem menn ráðstöfuðu sjálfir í þau verkefni sem þeir teldu brýnust. Var að heyra á ræðum forsætisráðherra þarna á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi eða á þingi Eyþings á Grenivík að þess væri að vænta að fjárfestingaráætluninni, sóknaráætlunum landshlutanna yrði stútað? Nei. Það var ómöguelgt að ráða það af þeim ræðum. En svo kom fjárlagafrumvarpið nokkrum dögum síðar og þá var það þannig; núll, 15 milljónir í úttekt, sem er ekki neitt. Auðvitað á að setja þetta aftur inn (Forseti hringir.) og við sættum okkur þá bara við að ekki geti orðið aukning, allt í góðu lagi, (Forseti hringir.) kyngjum því bara, en sömu fjárhæð og í fjárlögum yfirstandandi árs, það er svartasta lágmark. (Forseti hringir.) Við förum væntanlega ekki heim, herra forseti, fyrr en það er komið aftur inn.