143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn geta sjálfsagt lesið bækur með mismunandi gleraugu á nefinu og hlustað á ræður og numið mismunandi blæbrigði út úr þeim. Ég kannast t.d. ekki við að það sé eitthvað neikvætt við að fagna því sérstaklega að við stefnum að hallalausum fjárlögum á árinu 2014, byrjaði ég ekki ræðu mína á því? Jú, ég veit ekki betur.

Að sjálfsögðu er ýmislegt í þessu frumvarpi, skárra væri það nú, sem er mikilvægt og brýnt og þarft eins og alltaf er. Það er ekki þannig að maður sé að úthúða fjárlagafrumvarpi í heild sinni þó að maður taki upp og ræði kannski fjóra, fimm tilgreinda gagnrýnisliði, sem ég leyfði mér að gera í seinni hluta ræðunnar. Að öðru leyti talaði ég um hina stóru mynd, ríkisfjármálahorfur til næstu ára, sem við erum væntanlega öll sammála um að eru óásættanlegar, alla vega erum við það, ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég kannast því ekki alveg við þessa túlkun á ræðu minni, ég verð að segja eins og er.

Ég skal þá tilgreina að það er mjög jákvætt að við erum að stefna að hallalausum fjárlögum. Það hefði verið mikið áfall ef við hefðum ekki náð því, því að við vorum búin að vinna að því hörðum höndum síðan 2011. Það er jákvætt (Forseti hringir.) að við reynum að sameinast um að auka fjárveitingar inn í heilbrigðiskerfið. Það eru allir sammála um að þess þarf (Forseti hringir.) og fjárlagafrumvarpið eins og það kom fram gekk ekki upp í þeim efnum. En þá er ég auðvitað orðinn neikvæður aftur.