143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki eftir því að ég hafi nokkurn tíma greitt atkvæði gegn fjárlögum vegna þess að að lokum, þegar menn standa frammi fyrir því rétt fyrir jól eða áramót að taka afstöðu til fjárlaga, þá þarf ríkið fjárlög. Og það liggur í eðli máls að meiri hlutinn sem það ber fram og afgreiðir á sinn hátt ber ábyrgð á því að lokum. Ég hef aldrei fundið mig í því, jafnvel þó að það væri ýmislegt í fjárlagafrumvarpi frá fyrri ríkisstjórnum, að fara að greiða atkvæði gegn því, vegna þess að ríkið þarf einfaldlega fjárlög eða fjárheimildir til að hægt sé að borga út laun 1. janúar o.s.frv.

Varðandi auðlegðarskattinn þá er því til að svara að við tókum hann upp á sínum tíma og gerðum síðan, líklega frekar í tvígang en einu sinni, nokkrar breytingar á honum, reyndar til nokkurrar hækkunar. Við þrepaskiptum honum í reynd til þess að geta haft rýmri frítekjumörk og leggja þyngsta hluta byrðanna á verulega mikinn auð, þ.e. sem kominn er í 200 milljónir hreinar skuldlausar eignir eða þar yfir. Við vorum þar svolítið að fara að norskri fyrirmynd þar sem Norðmenn eru með sinn (Forseti hringir.) „formueskat“. En auðvitað má alltaf endurskoða og betrumbæta hluti af þessu tagi og það er m.a. það (Forseti hringir.) sem ég mun leggja til í breytingartillögum við annað þingmál.