143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig rak í rogastans þegar hv. þingmaður vakti athygli þingheims á því að í þeim tillögum sem koma frá fjárlaganefnd núna við 2. umr. er niðurskurður á þróunaraðstoð tengdur því að ekki hafi orðið af tekjuöflun vegna sérstaks veiðileyfagjalds. Ég staðfesti það, að minnsta kosti hvað mig varðar sem fór með þessi mál í tíð síðustu ríkisstjórnar, að ég hef aldrei heyrt á þetta minnst fyrr en í dag, aldrei tekið mér þetta í munn. Þetta er hugsanlega til marks um það hvernig þeir sem unnu þessar tillögur hafi kynnt sér málin. Það virðist vera sem þeir þekki hvorki haus né sporð á þessu, enda fara þeir af mikilli harðýðgi í það mál. Ég læt vera að fara frekari orðum um það.

Hv. þingmaður taldi upp ýmiss konar missi tekjustofna á næstu árum og komst að því að það væru 20 milljarðar á ári þegar mest yrði. Mér er nær að halda, við að leggja saman það sem hv. þingmaður fór með, að það nálgist 25 milljarða, að minnsta kosti eru það 23. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað þarf hagvöxtur að aukast mikið (Forseti hringir.) og verða mikill til þess að vinna upp gegn þessu?