143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í sinni allra einföldustu mynd, af því að tíminn leyfir ekki meira, ein mínúta, getum við sagt sem svo að 1% hagvöxtur auki landsframleiðsluna um 18 milljarða, 20 milljarða, 1% af 1.800 milljörðum. Gömul þumalputtaregla segir að þá sé ekkert fjarri lagi að þriðjungur eða svo geti skilað sér í formi aukinna tekna ríkisins, þannig að 4–5 milljarðar af hverju prósenti í viðbót í hagvexti er ekki fjarlæg nálgun, en þetta er auðvitað mjög gróft og kemur ekki endilega alltaf eins út eftir því hvar hagsveiflan er.

Já, ég hef af því áhyggjur að vegna þess að verið er að draga úr fjárfestingu í innviðum og stuðningi við vaxtargreinar atvinnulífsins og verið að draga úr stuðningi samneyslunnar í raun og veru við eftirspurn í samfélaginu séum við að fara yfir í kælingarátt með þeim áherslum í ríkisfjármálum sem við leggjum hér. Um þetta er auðvitað oft deilt en eitt er alveg sannað og það er að ef þú léttir t.d. sköttum af tekjuhæstu hópum samfélagsins hefur það kælandi áhrif. Ef þú tekur hins vegar skatta af þeim og endurráðstafar í gegnum (Forseti hringir.) samneysluna hefur það jákvæð áhrif, vegna þess að bættur kaupmáttur (Forseti hringir.) þessara hópa fer í eyðslu sem eykur ekki endilega innlenda eftirspurn.