143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nákvæmlega sama hvaða leið þessir fjármunir fara ef þeir fara bara á réttan stað og gagnast þessu verkefni. Ég vil ekki sjá að þeir sitji fastir í ríkissjóði.

Varðandi það að samningurinn hefti stöðu fjarskiptasjóðs að þessu leyti þá skulum við bara ræða hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Hér er ríkið ósköp einfaldlega að styðja við þetta fjarskiptafyrirtæki á ákveðnum erfiðleikaárum. Leiðin um fjarskiptasjóð er valin vegna þess að ESA mælti með því að þeir almannaþjónustuhagsmunir yrðu skilgreindir sem þarna var verið að passa upp á með því að halda fyrirtækinu á floti og sú leið farin með opinberum stuðningi við fyrirtækið í gegnum samning og skilgreind markmið, það færi betur á því. En auðvitað er þetta ekkert annað en ríkisaðstoð við fyrirtækið. Burt séð frá því hvernig þeir fjármunir eru merktir þá er fjarskiptasjóður í raun og veru bara sendiboði með þessa fjármuni inn í fyrirtækið (Forseti hringir.) og það á ekki að þurfa að trufla hitt eitt eða neitt. (Gripið fram í.)