143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað vildi þá hv. þingmaður gera, formaður fjárlaganefndar? Vildi hún setja fyrirtækið á hausinn, átti að slökkva á strengnum? Verðum við ekki að horfast í augu við þann veruleika sem þarna er? Sem betur fer gengu fyrri orðaskipti í þá átt að menn yrðu einfaldlega að horfast í augu við þetta og takast á við þetta sem hluta af óumflýjanlegu og bráðnauðsynlegu grunnneti fjarskipta fyrir Ísland að hafa almennileg sambönd til útlanda.

Það er reyndar ekki rétt að þessi mál liggi í fjármálaráðuneytinu, ef ég má í allri hógværð minni leyfa mér að prófa að leiðrétta hv. þingmann, sem tekur nú nokkuð djúpt í árinni þegar hún er að skóla aðra menn til og kenna þeim. Það er auðvitað innanríkisráðuneytið sem fer með fjarskiptamál og það var innanríkisráðuneytið sem hafði forustu um gerð samningsins. Það var innanríkisráðuneytið sem var í samskiptum við ESA. En að sjálfsögðu fylgdist fjármálaráðuneytið með því á sínum tíma og fjármálaráðuneytið hafði farið með eigendahlutverkið og aukið hlutaféð í fyrirtækinu í samstarfi við aðra eigendur o.s.frv. En þegar þessi staða var komin upp á sínum tíma, að Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins mælti með því að (Forseti hringir.) frekari fjárstuðningur við Farice færi fram í gegnum samning á grundvelli skilgreindra almannahagsmuna, var sú leið valin.