143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það á sérstaklega við um menntamálaráðuneytið og þær stofnanir sem það stendur fyrir en ég hef svolitlar áhyggjur af því að mér finnst þess sjá stað — hvað varðar Ríkisútvarpið, hvað varðar umrædd skráningargjöld, hvað það varðar að nú er búið að breyta eitthvað til í tillögu um að stytta nám í framhaldsskólunum, hugleiðingum manna um það — að verið sé að þrýsta á breytingar í krafti fjármagnsins.

Ekki er rætt um að skera eigi Ríkisútvarpið niður við trog, það er ekkert rætt í þinginu. Ekki virðist heldur eiga að ræða, eða við höfum ekki séð þess stað, styttingu á framhaldsskólunum. Getur það verið rétt munað hjá mér að þegar skráningargjöld háskólanna voru hækkuð áður fyrr hafi það verið gert með sérstöku frumvarpi og sérstakri umræðu í þinginu en því ekki bara slengt fram í hálfgerðri neðanmálsgrein í fjárlögunum og forsendum fjárlaga? Mér finnst það mjög umhugsunarvert hvað verið er að gera mikið í krafti fjármagnsins en ekki með því að við tölum um hlutina og úttölum okkur um hvernig við viljum hafa þá.