143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er reyndar mjög mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kemur inn á og gaman að sjá lögmanninn mættan hér í þingsal því að þetta er einmitt lagalegt álitamál. Muna þingmenn þegar hæstv. menntamálaráðherra ætlaði að nota breytingar á úthlutunarreglum LÍN til að hafa áhrif á það hvernig háskólanemendur skipulegðu nám sitt? Hann var rekinn til baka með það núna fyrr á þessu ári. Af hverju? Af því að það eru ólögmæt sjónarmið sem þar voru að baki. Það er ólögmætt að hafa áhrif á það hvernig háskólinn skipuleggur sitt nám með því að beita lánasjóðnum.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar segir í nefndaráliti um forsendur fjárlaga, með leyfi forseta:

„Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.“

Þarna tel ég að menn séu komnir á sama stað, að verið sé að reyna að hafa áhrif á námsframboð og skipulag háskólans með skráningargjöldum og það er ólögmætt sjónarmið að mínu mati fyrir utan að maður veit ekki hvað átt er við þegar sagt er að nýta eigi betur það nám sem háskólarnir bjóða upp á. Ég spurði: Þýðir það að það er hvati til þess að menn fái frekar 9 en 8? Er það að nýta betur námið? Menn skýra þetta ekki neitt og koma svo með svona breytingar hingað inn í einhverjum bandormi við 2. umr. eða jafnvel á milli 2. og 3. umr., eða guð má vita hvað. Þessi prinsipp hafa ekki fengið þrjár umræður eins og á að vera með vandaða lagasetningu, þó að stjórnarskráin kveði á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema að undangengnum þremur umræðum. Þetta finnst mér vera óvönduð lagasetning og ég tel að þetta sé eitthvað fyrir stjórnarliðana að íhuga, ekki síst þá sem kunna eitthvað fyrir sér í lögum, til að réttarríkið verði ekki algerlega í uppnámi.