143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er um margt sammála hv. þingmanni en þó vil ég segja varðandi það að verið sé að fjölga starfsfólki í forsætisráðuneytinu og annað slíkt, sem hv. þingmaður tók sérstaklega fram, og setja jafnvel nýjar deildir án þess að flytja fólk annars staðar frá að ég er þeirrar skoðunar að hæstv. forsætisráðherra veiti ekkert af eins mikilli aðstoð og frekast er kostur í sitt ráðuneyti. Ég sé ekki ofsjónum yfir því þó að þangað færu enn fleiri aðstoðarmenn. Ég held til dæmis að það gæti verið ágætt ráð að sett yrði upp fjölmiðladeild í forsætisráðuneytinu og það væri hægt að ráða eitthvað af þessu þrautþjálfaða fólki frá Ríkisútvarpinu þangað inn og styrkja við þá starfsemi forsætisráðuneytisins. En að því slepptu er auðvitað hárrétt hjá þingmanninum að það er dálítið sérkennilegt hvernig farið er með þessi mál.

Varðandi þróunarsamvinnuna sem þingmaðurinn nefndi líka og ég kom ítarlega að í mínu máli þá finnst mér kjarninn vera þessi: Þegar menn fara með einhverjar tölur um að þróunarsamvinnan hafi hækkað á einhverju tilteknu ári, milli áranna 2008 og 2009, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og síðan lækkað eftir það er orsökin sú að landsframleiðslan féll. Ég vona að menn hafi ekki gleymt því, hún féll. Krónan féll. Fjármagnið sem búið var að setja í fjárlögum fyrir árið 2009 var þarna í fjárlögunum og þar af leiðandi hækkaði hlutfallið. Það var engin meðvituð ákvörðun um að fara með það upp í 0,33%. Þvert á móti var gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2009 að það yrði 0,26%. Þannig var útreikningurinn á því. Og síðan var samþykkt þróunarsamvinnuáætlun á árinu 2011 að frumkvæði þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar sem hér situr. Frá því að hún var sett af Alþingi (Forseti hringir.) hefur verið staðið við það hlutfall sem átti að fara í þróunarsamvinnu á hverju einasta ári þangað til núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við völdum.