143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá þingmanninum, það er auðvitað dálítið sérkennilegt hvernig staðið er að sumu, eins og t.d. þessari svokölluðu 5% aðlögunar- eða niðurskurðarkröfu á ráðuneytin. Þau fara afar misvel eða -illa eftir atvikum út úr því. Það er einhver meinbægni, finnst mér, hvernig látið er með utanríkisráðuneytið í þessu efni vegna þess að ég tel að utanríkisráðuneytið sinni geysilega þýðingarmikilli hagsmunagæslu fyrir íslenskt samfélag, fyrir íslenskt þjóðfélag, fyrir íslenskt atvinnulíf og menningu víða um heim. Það gerir það að mínu mati á mjög árangursríkan hátt með tiltölulega mjög fáu starfsfólki. Manni dettur helst í hug að hér sé á ferðinni einhver meinbægni út í hæstv. utanríkisráðherra, þetta er mjög sérkennilegt.

Varðandi IPA-styrkina hef ég sagt að ég er sannfærður um það að ákvörðun Evrópusambandsins núna er pólitísk ákvörðun sem þar er tekin á hæsta plani. Ég hef ekki trú á því að hún sé tekin bara út í loftið eða af því að þeim hafi allt í einu dottið það í hug núna. Ég hef leitað eftir svörum meðal annars hér í umræðunni um störf þingsins í morgun við hv. formann utanríkismálanefndar hvort það kunni að vera eitthvað af hálfu íslenskra stjórnvalda sem gæti hafa gefið tilefni til þess að Evrópusambandið tók þessa ákvörðun. Það þykist enginn kannast neitt við neitt í því efni en mér finnst þetta undarlegt, ég verð að segja alveg eins og er. Ég velti fyrir mér hvort óvarlegar yfirlýsingar frá íslenskum ráðamönnum kunni að vera þarna undirliggjandi án þess að ég hafi neitt fyrir mér í því.

Hér eru auðvitað mjög mörg verðug verkefni, eins og þingmaðurinn nefndi, og sum þeirra eru ekki tengd ESB-aðildarferlinu sérstaklega. Það er til að mynda verkefni sem voru tengd því að við erum í EES. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög bagalegt að menn skulu ekki reyna að halda góðum tengslum við Evrópusambandið, burt séð frá afstöðunni til aðildar, og að samskiptin séu heiðarleg og hreinskiptin. (Forseti hringir.)Það finnst mér að eigi að einkenna okkar starf í samskiptum við aðrar þjóðir og þjóðasamtök.