143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta eru ómanneskjulegar aðferðir, en ég er ósammála honum um að það sé gert meðvitað af einhverjum popúlískum ástæðum. Það er fyrst og fremst, eins og við vitum sem höfum setið slímusetur í þessum sal, að einn þingmaðurinn í hópi niðurskurðarmeistaranna hefur alltaf verið með sveðjuna á lofti gagnvart því að nota fé skattborgara til þess að styðja fátækt fólk og er þess valdandi að Ísland verður sér nú til skammar með því að vera að dragast langt aftur úr öllum. Þetta eru einfaldlega persónulegar tilfinningar eins þingmanns sem mér finnast sjálfum byggjast á miskunnarleysi og harðýðgi. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um það núna, ég er dapur yfir því.

Hv. þingmaður sagði að nú ættum við að slá skjaldborg um Landspítalann. Ég er sammála honum þar líka, nú er tíminn. Það var ætlun fyrri ríkisstjórnar að nota það skeið sem nú er að hefjast og átti að vera uppbyggingarskeið og gæti verið það ef menn hefðu á annað borð eitthvert plan í atvinnumálum, sem þessi ríkisstjórn virðist ekki hafa. En hv. þingmaður sagði að við ættum að gera þetta og mig langar að spyrja: Hvernig? Er hann t.d. að leggja til að ráðist verði í (Forseti hringir.) byggingu nýs Landspítala?