143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég ræði ræðu hv. þingmanns vil ég geta um örfáar staðreyndir. Skuldir ríkissjóðs eru um 1.800 milljarðar. Vextir af því eru 70 milljarðar á ári, eitt stykki sjúkrahús á hverju einasta ári. Vextir eru því 200 milljónir á dag. Það vill svo til að þau atriði sem hv. þingmaður nefndi í ágætri ræðu — nú kem ég inn á ræðuna — voru einmitt af þeirri stærðargráðu, vextir á dag.

Hv. þingmaður kom með, eins og margir aðrir í þessari umræðu, ég hef hlýtt á hana, það sem ég vil kalla tuggu um þá skatta sem ríkisstjórnin hefur fallið frá. Það er löngu búið að ræða það, það var gert í sumar. Það er því óþarfi að vera að tyggja það aftur og aftur, í hverri einustu ræðu. Það dregur umræðuna á langinn og kemur málinu lítið við.

Það sem hv. þingmaður ræddi voru legugjöld og jólabónus, hann ræddi reyndar ekki RÚV en þróunaraðstoð, allt 200 milljónkallar eða 250 milljónkallar, vextir á dag hvert um sig. Hann sagði jafnframt í ræðunni að veikasta fólkið væri innritað. Nú vill svo til að maður sem þarf að skera upp vegna krossbanda í hné leggst inn. Hann er þar af leiðandi veikari en krabbameinssjúklingur sem fer í kviðsjáraðgerð og er ekki lagður inn og borgar fyrir aðgerðina, fyrir læknisþjónustu og fyrir blóðtöku og allar rannsóknir.

Ég veit ekki hvort hv. þingmanni finnst þetta eðlilegt. Mér finnst það ekki. Ég hef nefnilega annað mat á því hver er veikur og hver er ekki veikur eða veikastur, það er erfitt að meta það.

Ef við gerum ekki eitthvað í þessum halla ríkissjóðs munu börnin okkar, næsta kynslóð, borga.