143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmanninum varð þarna á að bera saman epli og appelsínur, en það er allt í lagi. Þegar við berum saman sjúklinga eða sjúklingahópa, alveg eins og þegar við berum saman önnur atriði, verðum við að passa okkur á því að bera saman sambærilega hópa. Tveir krabbameinssjúklingar þar sem annar er veikari en hinn, ég get alveg fullvissað þingmanninn um að sé eitt pláss í boði á spítalanum fær sá veikari það. Það nákvæmlega sama á við um einstaklinginn sem fer í krossbandaaðgerð, ef þarf að leggja einn sjúkling inn þá fær sá sem er veikari pláss. Það eru oftast eldri sjúklingar, sjúklingar sem eru með fleiri vandamál, sjúklingar sem eru með flóknari vandamál eða þar sem um samspil margra vandamála er að ræða.

Þingmaðurinn veit líka, og ég þakka honum fyrir að minna mig á það sem ég hef áður sagt í hans eyru, að við höfum gengið of langt í innheimtu gjalda á til að mynda krabbameinssjúklinga. Það hef ég sagt í eyru þingmannsins áður, við höfum gengið allt of langt. En við eigum ekki að bregðast við þeim vanda með því að fara að rukka einhverja aðra sjúklingahópa. Við eigum miklu frekar að bregðast við þeim vanda með því að draga úr gjöldum á þá sem eru að borga of mikið.