143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar fyrir árið 2014 og inn í það blandast ýmislegt annað eins og komið hefur fram í þessum umræðum sem hafa staðið í eina þrjá daga og sem speglast svolítið af því hve langan tíma fjárlagaumræðan í fyrra tók. Og það er kannski ekkert óeðlilegt að það sé rætt vegna þess að margt er hægt að ræða. Það eru fimm ár frá hinu stóra og mikla hruni sem setti allt á annan endann, jafnt hjá ríkissjóði, almenningi í landinu, fyrirtækjum og öðrum, og það er því ósköp eðlilegt að vel sé farið yfir þessi mál.

Ég hyggst fara yfir stöðuna eins og hún var, hvernig unnið hefur verið á henni og hvers vegna skuldir ríkissjóðs eru svo miklar sem raun ber vitni, sem gerir að verkum að ríkissjóður borgar um 70 milljarða kr. í vexti á ári af skuldum sínum. Það er ríflega einn nýr Landspítali. Fyrir þessu eru ástæður, ekki endilega þær að ríkisstjórnin hafi farið illa að í ríkisfjármálum heldur er um að ræða afleiðingar af hruninu og því sem þurfti að gera þá. Ég ætla að koma að því aðeins seinna.

Ég verð að gagnrýna mjög núverandi stjórnarmeirihluta fyrir það hve seint þetta er allt saman fram komið, að við skulum enn vera hér, undir kvöld 17. desember, í 2. umr. fjárlaga, þegar vinnu við fjárlagafrumvarp ætti í raun að vera lokið. Þá verð ég líka að minna á að núverandi hæstv. ríkisstjórn óskaði eftir því á sumarþingi að þingsköpum Alþingis yrði breytt, að vísu bara til bráðabirgða, til að meiri tími gæfist til að vinna tekjuöflunarfrumvarp sem nú átti í fyrsta skipti að leggja fram samhliða fjárlagafrumvarpi. Þetta var nýtt í þingsköpum Alþingis og við höfum líka breytt samkomudegi þingsins en þingið átti að koma til starfa 10. september sl., en fyrir þá breytingu var komið saman 1. október. Þá lagði ríkisstjórnin fram fjárlagafrumvörp sín. Sá sem hér talar hefur átt sæti í þingskapanefnd og lagði mikla áherslu á það ásamt öðrum á sínum tíma að þessu ákvæði yrði breytt, að samkomudegi Alþingis yrði flýtt fram í september, til þess meðal annars að fjárlagafrumvarp yrði lagt fyrr fram til þinglegrar meðferðar og þingið, fjárlaganefnd aðallega, hefði lengri tíma til að vinna fjárlagafrumvarp en áður hefur verið þegar verið var að leggja það fram 1. október.

Samhliða þessu var sett inn í þingsköp að ríkisstjórn skuli líka leggja fram tekjuöflunarfrumvörp sín á sama tíma. Við sjáum að þessi breyting var til góðs þó svo að núverandi ríkisstjórn hafi í raun klúðrað málum þetta árið. Þeir byrjuðu á því að fá frest á samkomudegi til 1. október og síðan hefur fjárlagavinnan gengið mjög illa. Þó svo að fjárlaganefnd hafi haldið 20 fundi og, eins og segir í nefndaráliti, fengið til sín fulltrúa 50 sveitarfélaga og einhverja frá ríkisstofnunum, er það engu að síður gagnrýnisvert hvernig á málum hefur verið haldið, líka í fjárlaganefnd.

Ég er varamaður Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd fyrir okkar ágæta fulltrúa og aðalmann, Oddnýju G. Harðardóttur. Ég hef þurft að mæta á nokkra fundi fjárlaganefndar og hef orðið mjög undrandi á þeirri vinnu sem þar hefur verið. Ég var til dæmis mjög undrandi á fundi þegar til stóð, vegna þess að þá áttu breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga að fara að koma fram — ef ég man rétt var þetta á þriðjudegi eða miðvikudegi, skiptir ekki öllu máli, nema hvað að boðað var af formanni nefndarinnar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að nú yrði fundað lon og don, ef ég má nota það orðalag, að menn skyldu búa sig undir langa og mikla fundi og þar á meðal yrði fundað á meðan Alþingi væri að störfum í þessum sal. Ég mótmælti þessu enda viljum við halda í það prinsipp að nefndir séu ekki að störfum þegar fundur er á Alþingi.

Brugðist var við því með bókun. Í fundargerð nefndarinnar var bókað af formanni að þar sem fulltrúi Samfylkingarinnar vildi ekki að fundur yrði haldinn á þingfundatíma skyldu nefndarmenn búa sig undir kvöld- og næturfundi á fimmtudag og föstudag og gott ef ekki laugardag og sunnudag. Landsbyggðarþingmenn í fjárlaganefnd voru vinsamlegast beðnir að koma suður á sunnudagskvöldi vegna þess að byrja ætti snemma á mánudegi. Þarna var von á breytingartillögum fyrir 2. umr. og þarna var fjáraukinn nýkominn fram, sem kom líka allt of seint, og þarna átti að fara að taka á móti ráðuneytum til að ræða fjáraukann.

Hvað gerðist svo? Voru þessir fundir haldnir? Nei. Fimmtudagsfundurinn var sleginn af, föstudagsfundurinn var sleginn af, engir kvöld- og næturfundir og ekki heldur á laugardag og sunnudag. Fundurinn sem boðað var til á mánudagsmorgun — eins og ég sagði áðan voru landsbyggðarfulltrúarnir beðnir um að flýta för sinni hingað til Reykjavíkur til að geta byrjað snemma á mánudagsmorgni; mér skilst að fyrsta flug, aðallega frá Akureyri, hafi gert að verkum að nefndin hafi getað byrjað klukkan 9 á mánudögum — var líka sleginn af og fundur ekki haldinn fyrr en 17.30 þann dag og hann stóð í tvo tíma.

Virðulegi forseti. Þetta tek ég sem dæmi og gagnrýni þessi vinnubrögð á sama hátt og ég gagnrýni vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að hafa þurft að fá þennan frest, eftir á að hyggja, sem greinilega hefur lítið sem ekkert verið notaður. Ég þekki það frá fyrri tíð að fjárlagavinnan á vegum ráðuneyta og annað gengur sinn vanagang þó svo að kosningar hafi verið. Og vegna þess að við erum svona langt á eftir áætlun að ræða fjárlög, vegna þess að breytingartillögur fyrir 2. umr. komu seint fram og eru enn þann dag í dag að taka breytingum, þá erum við orðin þetta langt á eftir áætlun og ég hlýt að gagnrýna það líka. Ég skil ekki almennilega hvers vegna þurft hefur að taka svona langan tíma í þær breytingartillögur sem hér eru settar fram vegna þess að hér er ekkert verið að breyta neitt voðalega miklu. Verið er að hækka tekjur um 4,3 milljarða, sem kemur meðal annars af því að skattar á tekjur og hagnað eru taldar skila 3 milljörðum umfram fjárlög á þessu ári og skattar á vöru og þjónustu 2,3 milljörðum, en á móti vegur lækkun arðgreiðslu o.fl. um 1,8 milljarða. Þetta er því allt og sumt, 4,2 milljarðar bætast við tekjumegin og svipuð tala gjaldamegin. Við erum því við það að nálgast 600 milljarða markið með heildartekjur og heildargjöld.

Mér finnst að það sé ekki vegna þess hvaða tillögur voru gerðar, samanber ótrúlega ósvífnar tillögur um niðurskurð til þróunaraðstoðar. Hvers vegna þurfti þetta að taka svona langan tíma? Það skil ég ekki. Og enn síður eftir að hafa hlustað á forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktsson í sjónvarpsþætti að boða 350 millj. kr. niðurskurð á barnabótum, vaxtabótum og ýmsu fleiru. Í þeim ágæta útvarpsþætti Sprengisandi tók formaður fjárlaganefndar þetta líka upp og gaf í ef eitthvað er á sinn hátt, sem auðvitað er sett fram þannig að það skilst alveg, samanber hótun um niðurskurð til Ríkisútvarpsins. Ég er nú í hagræðingarhópnum, var sagt hvað það varðar.

Síðan kemur hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, á mánudeginum eftir þessar miklu yfirlýsingar, spyr hæstv. forsætisráðherra út í niðurskurð á barnabótum og þá slær hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, boðaðan niðurskurð formanns Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, af í einu vetfangi, um 350 millj. kr. niðurskurð á barnabótum.

Þá kem ég aftur að því sem ég held að sé ástæða þess að þetta hefur allt dregist. Við erum fyrst og fremst svona seint á ferðinni með fjárlög og þessa umræðu, þrátt fyrir góð orð og góðar hugsanir hæstv. forseta Alþingis, sem var um það að mál kæmu snemma fram og allt það, vegna ágreinings innan stjórnarflokkanna. Það er þess vegna sem þessar tafir hafa orðið og ég held að líka megi skrifa það á reynsluleysi við stjórn fjárlaganefndar. Nú verð ég að segja alveg eins og er hvað það varðar að þá veit ég ekki hvort skipulag fjárlaganefndar og vinnubrögð hafi ekki verið nógu öguð eða hvort ríkisstjórnin hafi tekið svona langan tíma í að koma fram með þessar tillögur eða hvort um er að ræða sambland af þessu öllu. Þetta er gagnrýnisvert vegna þess að nú, fimm árum frá hruni, hefði þessi vinna ekki þurft að taka svona langan tíma. Sennilega er ágreiningur innan stjórnarflokkanna meiri en við gerðum okkur grein fyrir hvað þetta varðar. Ágætisáform sem stjórnarflokkarnir höfðu um aukningu til heilbrigðismála — nákvæmlega það sama og við þingmenn Samfylkingar sögðum við 1. umr. og lögðum höfuðáherslu á, að það væri okkar stefna að auka framlag til heilbrigðismála, það væri mál númer eitt, tvö og þrjú við fjárlagavinnuna. Sem betur fer virðist víðtæk samstaða vera hér á Alþingi um að auka fjárveitingu til heilbrigðismála, sama hvort það er til Landspítalans, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eða í heilbrigðisstofnanir og heilbrigðismál almennt, sem betur fer er það sett þarna inn.

Virðulegi forseti. Ég sagði hér í byrjun að mér vitanlega hefði ekki komið fram það sem við getum kallað fimm ára yfirlit frá hruni í ríkisfjármálum. Þegar samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við ríkisbúskapnum var ríkissjóður rekinn með um 216–220 milljarða kr. halla á hverju ári. Þetta voru engar smáræðistölur og áformum um að skila afgangi var frestað um eitt eða tvö ár og voru áætluð fyrir 2014. Ég fagna því að frumvarpið er þannig úr garði gert núna að gert er ráð fyrir um 660 millj. kr. afgangi á ríkissjóði fyrir árið 2014. Okkur veitir ekki af til þess að eiga upp í ýmislegt af því sem ég ætla nú að gera að umtalsefni.

Í kaflanum um stöðu og horfur í ríkisfjármálum í fjárlagafrumvarpinu eru mjög miklar og góðar upplýsingar sem ég ætla, með leyfi, að lesa hér upp. Hér koma fram tölur sem vert er að hafa í huga þegar menn tala um niðurskurð eða að ná afgangi eða því sem verið er að takast á við núna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Brýnasta viðfangsefni ríkisfjármálanna um þessar mundir er eins og undanfarin ár að vinda bug á hallarekstri og skuldasöfnun ríkissjóðs. Í kjölfarið á falli bankakerfisins haustið 2008 þurfti ríkissjóður að taka á sig þungar byrðar vegna endurreisnar fjármálakerfisins og efnahagsafleiðinganna, sem komu fram bæði í hrapi skatttekna og stórauknum útgjöldum, einkum vegna vaxtakostnaðar og atvinnuleysisbóta. Þannig féllu heildartekjur ríkissjóðs um nærri 8% af vergri landsframleiðslu (VLF) á milli áranna 2007 og 2009 á sama tíma og vaxtagjöld hækkuðu úr 4,6% í liðlega 19% af tekjunum og atvinnuleysisbætur úr 0,5% í 6% af tekjunum.“

Svo segir, virðulegi forseti:

„Hefðu ekki nánast allar skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður árin á undan er raunar vandséð hvernig hann hefði getað staðið af sér svo stór áföll nema með miklu meiri aðstoð frá alþjóðaaðilum og nágrannaþjóðum en kynni að hafa verið til reiðu. Afleiðing þeirra varð engu að síður að allar horfur voru á því að rekstur ríkissjóðs væri orðinn ósjálfbær til næstu ára litið. Afdrifaríkustu áhrifin stöfuðu af stóraukinni skuldabyrði.“

Síðan kemur kafli, virðulegi forseti, sem er ákaflega merkilegur og rétt er að hafa í huga þegar talað er um skuldir ríkissjóðs:

„Stór hluti af skuldaaukningunni átti rætur að rekja til erlendrar lántöku til að auka gjaldeyrisforða landsins, eða sem nam samtals nálægt 390 milljörðum kr.“

Svo kemur þessi kafli:

„Endurfjármögnun fjármálakerfisins var jafnframt verulegur hluti af áföllnum skuldbindingum. Ef talin eru með framlög til Íbúðalánasjóðs og SpKef hefur endurfjármögnun fjármálastofnana aukið skuldir ríkissjóðs um hátt í 250 milljarða kr.“

Þegar rætt er um fall fjármálastofnana er alltaf talað eins og það hafi eingöngu verið þrír stærstu bankarnir, höfuðbankarnir, sem hafi farið á hausinn.

En til er banki sem heitir Seðlabankinn og í fjárlagafrumvarpi stendur, með leyfi forseta:

„Þá þurfti að endurfjármagna Seðlabankann með útgáfu á skuldabréfi fyrir um 170 milljarða kr. í kjölfar þess að veðlán til viðskiptabankanna töpuðust við það að forgangsröð krafna var breytt með setningu svonefndra neyðarlaga í október árið 2008. Sá þáttur sem einna mest munar þó um á þessu tímabili er samfelld árleg skuldaaukning vegna halla á greiðsluafkomu ríkissjóðs, sem var orðin 350 milljarðar kr. í lok ársins 2012 og gæti stefnt í að verða nær 400 milljarðar kr.“ — þetta eiga örugglega að vera 400 milljarðar kr. — „í lok yfirstandandi árs. Þessar og aðrar skuldir ríkissjóðs eru orðnar rúmlega 1.500 milljarðar kr. og um 80% af VLF. Fyrirsjáanlegt hefur verið að þessa óheillaþróun verður að stöðva áður en skuldastaðan verður orðin illviðráðanleg eða fer að hamla enn frekar en orðið er getu ríkisins til að standa undir grunnþjónustu og velferðarkerfinu.“

Virðulegi forseti. Hér er talað um að atvinnuleysi hafi farið úr 0,5% í 6%. Má ég minna á að sennilega hafa tæplega 140–150 milljarðar — skulum við hafa það til að hafa svigrúm — verið greiddir í atvinnuleysisbætur á þessum árum frá hruni. Þær upplýsingar er vert að hafa í huga og líka þessa endurfjármögnun fjármálastofnana sem ég nefndi hér áðan, upp á 250 milljarða kr., og endurfjármögnun Seðlabankans upp á 170 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu er fjallað um að búið sé að borga í kringum 50 milljarða kr. í vexti, sem er um það bil einn nýr Landspítali.

Virðulegi forseti. Ég gat hér áðan um vaxtakostnaðinn, að hann verði í kringum 77 milljarðar kr. á þessu ári, eða um 4,3% af vergri landsframleiðslu, líkt og var á árinu 2012, og að vaxtajöfnuður, að teknu tilliti til vaxtatekna, verði neikvæður um 57 milljarða kr. eða um 3,2% af vergri landsframleiðslu. Þessir 77 milljarðar kr. eru, eins og áður hefur komið fram í máli mínu, verulega miklir peningar, eru blóðpeningar sem við sjáum af úr ríkissjóði sem mætti gera mikið fyrir. Þess vegna á auðvitað að stefna að hallalausum fjárlögum og að afgangi á fjárlögum, ekki veitir af til að borga þetta niður. Við skulum hafa í huga að náum við þeim árangri — sem því miður er ekkert líklegt og kannski bara algjörlega óraunhæft, eins og fjallað er um í frumvarpinu — að eiga afgang upp á 50 milljarða kr. á ári í tíu ár gerir það ekki nema 500 milljarða kr. eða sem nemur 1/3 skuldarinnar sem ég gerði að umtalsefni áðan, þ.e. skuldarinnar vegna gjaldeyrisforðans, endurreisnar fjármálastofnana, endurreisnar Seðlabankans, og svo er það halli á ríkissjóði undanfarin ár sem hefur meira að segja þurft að fjármagna með lánum.

Virðulegi forseti. Margt fleira mætti segja um þetta en miðað við þá tölu sem ég hef gert að umtalsefni held ég að allir séu sammála um að við þurfum að komast sem fyrst í meiri tekjur og minni útgjöld. Hvernig sköpum við meiri tekjur í þessu landi? Jú, með því að auka hagvöxt og auka hann sem mest hvað það varðar að nota náttúruauðlindir okkar, sama hvort það eru fallvötnin, jarðhitinn, fiskurinn í sjónum, eða bara mannauðurinn, íslenskt hugvit; að auka útflutningstekjur, auka atvinnusköpun, sérstaklega á sviði vöruframleiðslu, sama hvort um er að ræða þjónustustarfsemi eða útfluttar vörur — þ.e. við þurfum að flytja út vörur og skapa gjaldeyri inn í landið. Það er brýnasta verkefni okkar og hefur verið alla tíð en enn meiri þörf er á því nú en nokkru sinni fyrr. Það er auðvitað vegna þungrar skuldastöðu og gjaldeyrishafta sem menn kalla snjóhengju, sem var afleiðing af stjórnarstefnu þeirra ára þar sem aðalútflutningur Íslendinga var ekki fiskur heldur íslenskar krónur, krónubréfin frægu o.s.frv.

Ég nefndi það hér áðan, og las það upp sem stendur í frumvarpinu, að hefði ríkissjóður ekki verið svona skuldlítill haustið 2008, í hruninu, hefðum við farið enn þá verr. Minnist ég nú fjárlagafrumvarps sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, lagði fram — þó að ég muni nú ekki nákvæmlega hvaða ár það var, en það skiptir ekki máli. Þá var 80 milljarða kr. afgangur á fjárlögum, sem var notaður til að borga niður skuldir. Þar voru tekjur ríkissjóðs af gengdarlausum innflutningi og vitleysisgangi sem var í þjóðfélaginu, tollar, virðisaukaskattar o.s.frv., jafnvel af byggingum húsa eða að verið var að gera lóðir klárar til húsbygginga o.s.frv., sem við eigum nú á lager til margra ára.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi, áður en ég fer frá þessum hætti, vil ég geta þess sem voru fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar, sem var að kasta frá sér töluvert miklum tekjum á sumarþingi. Það var aðallega af lækkun veiðileyfagjalds, það voru miklir peningar. Það væri ekki verra að hafa meiri tekjur hér inni af því sem kastað hefur verið út um gluggann, hvort sem það var veiðileyfagjald, vaskur af ferðaþjónustu eða annað, til þess að hafa meiri afgang af fjárlögum eða skipta því aðeins betur niður en gert er þannig að við þurfum ekki að vera að ráðast á okkar minnstu bræður og systur. Það sem er einna sorglegast í dag snýr ekki að fjárlögum heldur að fjáraukalögum fyrir þetta ár. Við erum hér 17. desember og okkur hefur ekki enn tekist að sveigja ríkisstjórnina af þeirri óheillavænlegu braut að ætla, í fyrsta skipti frá hruni, að sleppa því að greiða desemberuppbót til atvinnuleitenda eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Nú standa út af 240 millj. kr. hvað það varðar til þess að það fólk sem hefur gengið um atvinnulaust, missti atvinnuna í hruninu og öllum þeim erfiðleikum sem gengið hafa yfir eftir það — þetta fólk er á atvinnuleysisbótum og fær um 170 þús. kr. á mánuði. Það var sárt og átakanlegt að hlusta á fólk hringja inn á einni útvarpsstöðinni og lýsa hag sínum, það gat ekki einu sinni leyft sér að gera það sem flestir Íslendingar gera, að gefa sínum nánustu smájólagjafir, heldur kom líka í ljós að jólin eru ekki mikil hátíðarstund hjá þessu fólki vegna þess að það hefur varla til hnífs og skeiðar.

Hver lifir af 170 þús. kr. í atvinnuleysisbætur? Enginn. Að þessi litla upphæð, 240 millj. kr. til desemberuppbótar fyrir þetta ár, skuli ekki enn vera komin inn 17. desember er ríkisstjórninni til skammar og þeim þingmönnum sem styðja hana. Trúi ég ekki öðru en að í samtölum milli minni hluta og meiri hluta takist að ná þeim samningum að við fjáraukafrumvarp fyrir þetta ár, sem nú er í þinglegri meðferð, verði þessari upphæð bætt inn og atvinnuleitendur fái þessa desemberuppbót. Þeir sem helst hafa talað við mig um nauðsyn þess að greiða út desemberuppbót er ekki fólkið sem er á atvinnuleysisbótum heldur fólkið sem hefur vinnu, og jafnvel býsna góða vinnu, er með töluvert háar tekjur. Því að fólki blöskrar hvernig komið er fram.

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi mjög hér í byrjun verklag ríkisstjórnar og fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið, annars vegar hve seint það kom fram, að það þyrfti þennan frest, hve seint breytingartillögur komu fram o.s.frv. Mér finnst það líka mjög miður að formaður fjárlaganefndar skuli ekki sjá sóma sinn í því að sitja hér í þingsal við 2. umr. fjárlaga. (Gripið fram í: Formaður fjárlaganefndar er á öðrum fundi núna.) — Það skiptir mig engu máli, virðulegi forseti, þó að formaður fjárlaganefndar sé á öðrum fundi. Hér stendur yfir þingfundur til umræðu um fjárlög og formaður og varaformaður fjárlaganefndar og fjárlaganefndarmenn eiga að sjá sóma sinn í að sitja hér í þingsal og hlusta á það sem fram er fært.

Ég hafði hugsað mér, virðulegi forseti, að leggja nokkrar spurningar fyrir formann og varaformann fjárlaganefndar en það hefur greinilega engan tilgang. Ég tek hins vegar eftir því að formaður fjárlaganefndar er búinn að setja sig á mælendaskrá eins og venja er, að tala síðust við lok þessarar umræðu, hvenær sem það verður. Ég mun því gera aðra tilraun til að spyrja hv. þingmenn, formann eða eftir atvikum varaformann nefndarinnar, út í nokkur atriði varðandi fjárlagafrumvarpið. Þær upplýsingar sem berast hingað núna, um að formaður fjárlaganefndar sé á fundi, undirstrika þá gagnrýni sem ég hef sett fram um að þetta virðist allt saman vera í skötulíki, ómarkviss og óskipulögð vinnubrögð, bæði frá hendi ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar sem virðist taka við skipunum daglega eins og ég hef nefnt.

Virðulegi forseti. Ég mun í seinni ræðum mínum fara betur yfir ýmis mál sem eru forsendur fyrir fjárlögum. Þegar við afgreiðum fjárlög fyrir árið 2014 er rétt að hafa í huga í hvaða stöðu við erum og hvert við erum komin frá hruni. Ég sagði í byrjun að við 1. umr. fjárlaga hefði það sjónarmið komið fram frá fulltrúum Samfylkingarinnar að því frumvarpi þyrfti að breyta og eitt aðalmál stæði þar út af, þ.e. fjárveitingar til heilbrigðismála. Samfylkingin lagði á það áherslu strax í byrjun, talaði fyrir því og gott ef einhverjir forustumenn okkar töluðu ekki jafnvel um að það ættu að vera einu breytingarnar. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég fagna því að samstaða er um það hér á Alþingi.

Tillögur Samfylkingarinnar um Landspítalann og heilbrigðiskerfið eru upp á rúma 5 milljarða kr. Sjá má tillögur um tekjur upp á 4 milljarða í breytingartillögum meiri hlutans og sömu upphæð út til heilbrigðismála. Þá vil ég geta þess, vegna þess að það er eins og þetta sé viðbót mikil, að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 var horfið frá því, sem var verk síðustu ríkisstjórnar, að skera ekki meira niður til heilbrigðismála en gert hafði verið í fjárlögum 2009–2012. Fjárlög fyrir 2013 voru ekki með neinum frekari niðurskurði í heilbrigðismálum.

Það var stefna þáverandi ríkisstjórnar og því var lýst yfir að um leið og við gætum, sem leit út fyrir að yrði árið 2014, yrði byrjað að skila til baka. Sá sem hér stendur hefur sagt það í þessum ræðustól að oft hafi það verið átakanlegt, að menn hafi neyðst til þess með óbragð í munni, að þurfa að ýta á þann takka að samþykkja ýmsar niðurskurðartillögur á síðasta kjörtímabili. En þegar haft er í huga það þrotabú sem við tókum við, með 220 milljarða halla, þá hefur á undraverðan hátt tekist að snúa þessu í það horf sem nú er komið — þó svo að það sé í tíð nýrrar ríkisstjórnar — að skila fjárlögum með 660 millj. kr. afgangi. Það var alltaf meiningin, það var alltaf skoðun þess sem hér stendur, að um leið og færi gæfist með auknum hagvexti, meiri vinnu, meiri útflutningstekjum, aukinni atvinnu, þá kæmu meiri tekjur inn til að fara að skila til baka því sem þurfti að skerða.

Það voru því mikil vonbrigði, þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram af núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta, að haldið var áfram að skera niður til heilbrigðismála. Það er vert að hafa í huga þegar talað er um að í breytingartillögum meiri hlutans sé verið að auka framlag til heilbrigðismála, þ.e. að hluta af aukningunni er verið að skila til baka. Síðasta ríkisstjórn setti á þessu ári mikla peninga til tækjakaupa á Landspítalanum, sem ekki var vanþörf á. Það var skorið niður í fjárlagafrumvarpinu þegar það kom fram en er nú komið inn aftur við breytingartillögu við 2. umr. fjárlaga.

Ég get notað þær örfáu mínútur sem eftir eru til að ræða um stöðuna í höfuðvígi heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þ.e. á Landspítalanum. Sá sem hér stendur hefur lengi verið þeirrar skoðunar að fyrir löngu hefði átt að vera búið að hefja byggingu nýs Landspítala. Ég var 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að taka töluverðan hluta af hagnaði af sölu Landssímans og setja það í sjóð fyrir Landspítala; það var kallað að selja Landssíma og byggja Landspítala. Það var gert, teknir voru frá miklir peningar, sem hurfu auðvitað í hruninu og þurfti að fara með frumvarp fyrir Alþingi um að afnema lög sem gerðu ráð fyrir miklum peningum þar af til Landspítalans.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar, með svokölluðum stöðugleikasáttmála, var Landspítalinn talinn bráðnauðsynlegt verkefni, spítalans vegna, starfsfólksins vegna, sjúklinganna vegna, og að við Íslendingar ættum það inni að byggja almennilegan Landspítala. Undirbúningur hófst. Hann hefur hins vegar ekki gengið eftir eins og áætlað var, því miður. Uppi voru mikil áform um að lífeyrissjóðir og fjárfestar kæmu að málum, en það gekk ekki eftir. Á næstsíðasta þingi var þeim lögum breytt og stefnt að því að byggja Landspítalann með afgangi af fé frá ríkissjóði.

Virðulegi forseti. Að mínu mati gengur það ekki upp og það er þess vegna sem ég, ásamt mörgum öðrum þingmönnum, hef flutt þingsályktunartillögu, sem er komin til nefndar, um byggingu Landspítala, þ.e. eins og segir í tillögunni, þjóðarsátt um byggingu Landspítala, að við einsetjum okkur það hér á Alþingi, fulltrúar allra flokka, að setjast niður og fara í gegnum þetta stóra og mikla verkefni, sem kostar eina 50–60 milljarða kr. með öllu, og finna leið sem allir flokkar geta sætt sig við til fjármögnunar á Landspítalanum þannig að hefja megi þá framkvæmd sem allra fyrst og byggja spítalann á næstu fimm árum. Ég er viss um að meginpeninginn sem fengist með lántöku frá lífeyrissjóðum mundum við borga til baka á næstu 40 árum með reiknuðum sparnaði, sem norskt ráðgjafarfyrirtæki hefur farið yfir og sett fram, (Forseti hringir.) við að reka Landspítalann á einum stað.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum taka fram að ég harma það að hafa ekki getað lagt fram spurningar mínar fyrir forustumenn fjárlaganefndar. Ég mun gera það í seinni ræðu.