143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ágæta ræðu. Þingmanninum var tíðrætt um ferli í ræðu sinni og fór mjög vel yfir það með hvaða hætti væri til dæmis hægt að tryggja að menn væru ekki að þjarka um það korteri fyrir jól hvort greiða ætti desemberuppbót til atvinnuleitenda. Ég er þingmanninum algjörlega sammála í því. Það er skammarlegt fyrir þá sem að því standa að ætla að reyna að koma í veg fyrir það.

Mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort hann telji að nokkuð hafi verið því til fyrirstöðu að leggja fjárlög fram á réttum tíma í haust. Það hlýtur eiginlega að vera, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að stjórnvöld sem treysta sér til þess að gefa frá sér fleiri, fleiri milljarða í tekjur séu með eitthvert plan. Það hlýtur að vera eitthvert plan í gangi um hvað eigi þá að gera. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það hafi ekki verið dálítið ankannalegt að sjá síðan að beðið var um frestun á framlagningu fjárlaga af þeirri ríkisstjórn sem hafði þó fullyrt að núna þegar hún kæmi mundi allt verða í uppsveiflu, enda var hennar fyrsta verk að gefa frá sér stórar fjárhæðir í tekjum. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á þessu.