143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég held satt að segja að ekki sé mögulegt að við gefum þjóðinni og okkur sjálfum þá góðu gjöf að ákveða það, að hinir pólitísku flokkar á Alþingi geti komið með þau skilaboð að samkomulag hafi náðst um að hefja byggingu Landspítalans, fundnar hafi verið til þess leiðir, blandaðar leiðir til fjármögnunar eins og ég hef gert að umtalsefni við flutning á þingsályktunartillögu minni, þ.e. með lánum frá lífeyrissjóði, einhverjum peningum frá ríkissjóði, vegna þess að ég horfi á samþykkt þingflokks Vinstri grænna og það er sjálfsagt að verða við því og ég tel að það sé hluti af því.

Síðan getur komið inn peningur vegna sölu ríkiseigna, margræddur bankaskattur, samningar við þrotabú gömlu bankanna. Það eru að vísu að verða dálítið margnota peningar en ég mundi halda að í þeim samningum væri hægt að kreista eitthvað út sem væri jafnvel hægt að leggja til Landspítala þannig að lántaka í byrjun mundi greiðast hratt niður (Forseti hringir.) með innborgunum. En að ná því nú, virðulegi forseti, að gera það á því sem eftir er af þessu þingi (Forseti hringir.) fram að jólum — nei, það næst því miður ekki.