143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ítarlega og ágæta ræðu sem ég náði reyndar ekki að fylgjast með allri en þó nokkru af henni og tók ekki eftir að hv. þingmaður talaði um sýn sína á menntamál. Drengir standa sig víst ekki jafn vel í skólakerfinu og maður mundi ætla. Það virðast ýmsar breytingar á lofti og sitt sýnist hverjum um hvers vegna það er. Mín persónulega skoðun er sú að það hljóti að hafa eitthvað að gera með breytt neyslumynstur á upplýsingum, þ.e. að krakkar og unglingar leita kannski meira að upplýsingum upp á eigin spýtur og leita því kannski ekki endilega mikið í skólann.

Þess vegna langaði mig að spyrja almennt um menntamálin og sérstaklega um grunnskólamenntamálin. Hefur hv. þingmaður einhverja skýra sýn í þeim efnum og vill hann þá kannski deila þeirri sýn með okkur?