143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Þá velti ég fyrir mér öðru sem ég er að vona að hv. þingmaður geti kannski frætt mig svolítið um vegna þess að ég er nýr þingmaður og hef ekki enn kynnst öllum þeim lausnum og kannski trikkunum til að fara með fjármál ríkisins almennt. Ég heyrði að það kæmi til greina að hækka skráningargjöld úr 60 þúsundum upp í 85 þúsund og að sá peningur ætti ekki einu sinni allur að renna til háskólans. Þetta minnir mig afskaplega mikið á nefskattinn gagnvart RÚV, Ríkisútvarpinu, og ég tek eftir meiru og meiru svona, að gjöld eru innheimt án þess að þau rati á sinn rétta stað.

Ég var að velta fyrir mér hvort þingmaðurinn hefði einhverjar hugmyndir sem hann gæti deilt með nýjum þingmanni um það hvernig mætti bregðast við þessu eða jafnvel reyna að leysa þetta vandamál.