143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágætisræðu og yfirferð hans á þessum málum. Af því að við erum í sama kjördæmi þá höfum við kannski upplifað eitt og annað sem tengir okkur við það sem hér er lagt fram. Mig langar m.a. að ræða við hann um sóknaráætlanir landshluta. Við höfum rætt svolítið verkefnið Brothættar byggðir og sóknaráætlanir og mig langar til þess að spyrja þingmanninn um það, en í fjárlögunum var gert ráð fyrir smáaurum í sóknaráætlanir og átti að huga að því að skoða þær eitthvað nánar, gefa út skýrslu og eitthvað slíkt, taka þetta út. En á fund fjárlaganefndar komu sveitarfélögin og lýstu almennri ánægju sinni með framkvæmdina á þessu þannig að maður skildi ekki alveg af hverju það þyrfti að taka þetta út.

Nú er hér gerð tillaga hjá meiri hlutanum um viðbótarframlag upp á 85 millj. kr. Það hefur svo sem ekkert verið skilgreint í hvað það á að fara eða hvernig því verður úthlutað á milli landshluta. Framlagið var 400 millj. kr. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þetta sé yfirleitt til skiptanna á milli landshlutanna.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann er um fjárlagagerðina, en hann talaði mikið um starfshætti og fyrirkomulag vinnunnar við fjárlagagerð og framlagningu fjárlagafrumvarps. Telur hann að ný fjárreiðulög, sem búið er að vera að vinna og var verið að vinna á síðasta kjörtímabili og nýr fjármálaráðherra hefur tekið að sér að leggja fram, breyti einhverju um tímasetningar á framlagningu fjárlagafrumvarps?