143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um fjárlögin og byrja á að ræða aðeins þann fund sem ég var á áðan með Bandalagi íslenskra listamanna, sem var afar áhugaverður, en fulltrúar þess buðu allsherjar- og menntamálanefnd ásamt fjárlaganefnd á sinn fund vegna þess að þeir fengu synjun á fundi með fjárlaganefnd, sem þeir sögðu að hefði ekki gerst í 30 ár, sem er mjög miður þar sem heildarsamtök hafa alla jafnan fengið áheyrn, að mér skilst, hjá fjárlaganefnd hafi þau óskað eftir því. Þarna er um að ræða samtök með 14 önnur smærri samtök innan borðs. Eins og við þekkjum hér úr umræðunni hefur sá niðurskurður sem þar er undir verið töluvert ræddur og sérstaklega niðurskurðurinn hjá myndlistarsjóði og öðrum sjóðum sem settir eru á núll, þ.e. fá ekkert. Áhyggjur þeirra lúta fyrst og fremst að því að ef það stendur, að niðurskurðurinn verður þannig að liðirnir verða settir á núll, þá verði það til þess að verkefni sem eru nú þegar komin af stað fái ekki framgang og leggist í rauninni bara niður. Við höfum rætt töluvert hvað það þýðir, þ.e. hvað greinin er að gefa af sér, þessar skapandi greinar og sú margföldun sem skilar sér inn í ríkissjóð vegna þeirra. Eðli málsins samkvæmt, þar sem fulltrúarnir voru jú að verja sinn hag, bentu þeir á skýrsluna frá 2010 þar sem skapandi greinum voru gerð góð skil af utanaðkomandi aðilum og í raun sýnt fram á hversu miklu greinin skilar. Það voru um 189 millj. kr. minnir mig, það árið, sem kom fram í þeirri skýrslu.

Bandalag íslenskra listamanna bendir á að rúmar 700 milljónir kr. vantar, þ.e. niðurskurðurinn, miðað við það og í rauninni færðu þau í bandalaginu ljómandi góð rök fyrir því sem þau voru að gagnrýna, þetta var kannski frekar hvatning en gagnrýni. Þau vildu eiga þetta samtal og hvetja okkur. Þarna mættu fulltrúar flokka bæði úr stjórnarmeirihluta og minni hluta sem var alveg ágætt. Ég held að allir hafi verið ánægðir með þetta samtal en hvatningin var sem sagt til okkar um að reyna að bregðast við þessu þannig að við gætum séð greinarnar halda áfram að vaxa og dafna. Þau bentu líka á að þrátt fyrir að þau óskuðu eftir að framlögin væru ekki skert þá gerðu þau sér vel grein fyrir því að þröngt væri í búi og hægt væri að komast af með minna en óskuðu þess að liðirnir yrðu ekki teknir alfarið af. Ég held að við eigum að reyna hvað við getum til að bæta úr því að einhverju leyti. Við gerum ráð fyrir að þurfa að leggja út ákveðna fjármuni til styrkja ef við göngum út frá því að það skili sér margfalt í ríkissjóð og ekki bara til langs tíma. Það kom skýrt fram á fundinum, og kom líka fram í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til áðan, að ekki er um það að ræða að þetta skili sér í ríkissjóð eftir langan tíma. Sumt af þessu kemur mjög fljótt í kassann. Ég held því að við eigum að leggja þessum greinum lið og bæta í aftur af því að ef við göngum út frá því að fara hugsanlega með minni rekstrarafgang inn í næsta ár þá getum við hugsanlega gengið út frá auknum tekjum líka miðað við þessar forsendur.

Mig langar líka aðeins að ræða sóknaráætlanir landshluta. Ég hef miklar áhyggjur af þeim verkefnum, menningarsamningunum og slíkum verkefnum. Ég átta mig ekki alveg á þeirri viðbót sem er verið að bæta við núna, 85 millj. kr., sem er góðra gjalda verð, en ég sé ekki að hún verði til skiptanna á marga staði. Áður var gert ráð fyrir að gera skýrslu um stöðuna eins og hún væri og hvernig ætti að gera þetta betur eða eitthvað slíkt en fram kom í fjárlaganefnd að öll sveitarfélög sem fjölluðu um sóknaráætlanir landshluta voru ánægð með framkvæmdina, ánægð með verklagið og óskuðu eindregið eftir því að áfram yrði haldið á sömu braut. Þess vegna var það svolítið sérstakt að þeir litlu fjármunir sem þarna voru inni voru ætlaðir til þess að taka þetta eitthvað sérstaklega út eða finna betri leiðir. Það var svona ekki alveg í takti við það sem þeir sem vinna með þetta sögðu.

Hér er hins vegar verið að bæta við 85 millj. kr. Það er ánægjulegt en gert hafði verið ráð fyrir 400 millj. kr. Það er náttúrlega heilmikill niðurskurður út frá því og mörg verkefni hafa verið færð til. Mikilvægt er að átta sig á því að verkefni sem voru hjá fjárlaganefnd, hjá nefndunum og á mörgum stöðum, voru sett í þennan farveg, m.a. inn í sóknaráætlanirnar, menningarsamninga og þess háttar til þess í rauninni að beita frekar faglegum rökum við úthlutun þessara peninga í staðinn fyrir að það væri pólitíkin eingöngu sem tæki slíkar ákvarðanir í nefndunum og koma í veg fyrir þetta „maður þekkir mann“ sem hafi þess vegna fengið úthlutað. Eða jafnvel eins og vitnað var til að hringt var í einhverja og spurt hvort þeir hefðu gleymt að senda inn erindi.

Það þarf líka að horfa á það, þegar við erum að skera niður í þessum verkefnum, að þau voru mjög víða annars staðar í kerfinu. Þetta átti að gera það gagnsærra, að vera með þetta á einni hendi eða í svona sértækum verkefnasjóðum. Ég veit að það er mjög miður að þetta skuli hafa farið í þennan farveg og því má segja að þetta skipti líka miklu máli varðandi búsetu á landsbyggðinni. Mörg þessara verkefna hafa skapað störf, sum þeirra hafa orðið til og þurfa örlítið meira til að geta haldið áfram og viðhaldið sér til að komast betur upp úr þeim sprota og orðið að alvörugrein.

Önnur eru tímabundin og ná yfir skemmri tíma en það kom þó samt fram, t.d. í kjördæmavikunni hjá okkur í Norðausturkjördæmi, að flest þessara verkefna voru rædd á íbúafundum, eins og gert var ráð fyrir að verkefnin færu fram og flest þeirra miðuðu að því að þau væru til lengri tíma, þau sköpuðu atvinnu og störf, ekki bara í einhverja ótilgreinda mánuði heldur væri það komið til að vera. En eins og ég sagði vantar örlítið meira hjá einhverjum og svo hlýtur það auðvitað að vera í okkar verkahring að aðstoða þær byggðir sem eiga undir högg að sækja mjög víða varðandi fjölbreytni í atvinnulífinu. Það kemur líka inn á það sem ég talaði um áðan með skapandi greinarnar, þ.e. fjölbreytni í atvinnulífi sem er úti um allt land og það skiptir máli þar. Það er ekki bara Sinfóníuhljómsveitin eða RÚV. Þetta snýst um svo margt annað. Eða um myndlistarmenn sem nenna ekki að vinna, eins og sagt var. Þetta snýst ekki um það, heldur snýst þetta um fjölbreytni í störfum úti um allt land.

Mig langar líka að ræða aðeins niðurskurðinn varðandi Jafnréttisstofu. Við höfum fengið erindi frá Jafnréttisstofu þar sem gerð er grein fyrir því hvað í rauninni gerist ef niðurskurðurinn verður, sá sem fyrirhugaður er. Þau eru í afar dýru húsnæði á Borgum á Akureyri. Fram kom hjá velferðarráðuneytinu á fundi í fjárlaganefnd að til stæði að finna út úr því að losa þau undan því en það liggur ekki fyrir. Og nú förum við að klára að vinna fjárlagafrumvarp og óþægilegt er að fara inn í árið og ætla að samþykkja þennan niðurskurð án þess að niðurstaða hafi fengist í það mál. Af því að fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra, þegar ég lagði fram fyrirspurn í þinginu, að hún hygðist frekar styrkja Jafnréttisstofu með fjölbreyttari verkefnum þá er svolítið sérstakt að á sama tíma sé verið að skera niður til Jafnréttisstofu.

Verkefni sem Jafnréttisstofa fer með, af því að kannski vita ekki allir um hvað það snýst, er meðal annars verkefni sem kostar 9 millj. kr. eða gert er ráð fyrir því, og heitir Karlar til ábyrgðar, þar sem körlum sem beita maka sína ofbeldi er boðið upp á meðferð. Það verkefni verður skorið niður um rúma milljón ef fjárlögin fara óbreytt í gegn og þá standa eftir fjárhæðir sem duga að sögn framkvæmdastýrunnar hvergi nærri fyrir launum. Á Jafnréttisstofu starfa átta starfsmenn í sjö stöðugildum og þeim er líka ætlað að afla sértekna, sem þau þar hafa efasemdir um að gangi eftir aðallega vegna þess að verkefni eru nýlega hafin eða eru að hefjast, og það gangi kannski ekki eftir miðað við fjárhæðina sem þeim er ætlað að afla.

Það er líka mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu um hvaðan tekjurnar koma að stærsti hluti þeirra sértekna, þ.e. Jafnréttisstofu, kemur úr Progress-sjóði Evrópusambandsins en af því að við sem Evrópuþjóð borgum í þann sjóð eigum við líka rétt á styrkjum úr honum, en þau gerðu grein fyrir því að þá verður auðvitað að vera til fólk á Jafnréttisstofu til að sinna þeim verkum. Þau telja að miðað við þetta þurfi að fækka um eitt, jafnvel tvö störf og benda á að allir nema einn eru háskólamenntaðir sem þar starfa og kannski ekki um auðugan garð að gresja fyrir fólk með háskólamenntun að fá starf fyrir norðan. Þess vegna er mikilvægt að reyna að halda í þau störf sem við mögulega getum miðað við kannski tilflutning verkefna eins og félagsmálaráðherra benti á. Jafnréttisstofa benti á að við förum með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni sem þýðir að Jafnréttisstofa sinnir mörgum verkefnum því tengdu, t.d. undirbúningi, eins og segir í erindi þeirra, vegna fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York sem verður haldinn í mars og við fengum kynningu á í fjárlaganefnd.

Íslendingar stýra þessu norræna samstarfi. Ráðstefnur verða í Færeyjum og Reykjavík, þær verða þrjár, og svo er önnur ráðstefna sem heitir Kynni af norðurslóðum, sem verður haldin á Akureyri næsta haust. Ekki er um stórar fjárhæðir í ríkisbúskapnum að ræða en þarna sér maður akkúrat hvað þetta skiptir miklu máli fyrir eina svona stofnun, eins og á Akureyri, við erum að tala um 7 millj. kr. Þetta eru tvö störf háskólamenntaðra á Akureyri. Ég hvet því hv. þingmenn til að endurskoða þetta og velta fyrir sér hvort við eigum ekki að breyta þessu, nú eða að fá tryggingu fyrir því að verði skipt um húsnæði og sparnaður náist með þeim hætti þá liggi það fyrir staðfest áður en við samþykkjum fjárlög. Annars finnst mér ótækt að samþykkja þennan niðurskurð og auðvitað hefði verið áhugavert að fá að vita nákvæmlega hvort og hvenær ráðherrann hygðist flytja þau verkefni sem hún nefndi að væri hægt að flytja á Jafnréttisstofu.

Mig langar aðeins að fjalla um Fæðingarorlofssjóðinn. Ég fór á fund velferðarnefndar sem varamaður í gær og var það áhugavert þar sem maður hefur setið í fjárlaganefnd og fær kannski öðruvísi sýn, annan vinkil á hlutina en það sem nefndarmenn þar voru að hugsa. Þau voru kannski ekki beint að hugsa um krónur og aura heldur annars konar áhrif. En þar var fullt af gestum, 20 manns eða ég veit ekki hvað, það var alla vega mjög margt. Fram komu hjá Samtökum atvinnulífsins og fleiri aðilum áhyggjur af því að gengið yrði um of á eigið fé Fæðingarorlofssjóðsins miðað við óbreytt ástand, þ.e. að útgreiðslur úr honum yrðu með svipuðum hætti og áður. Líklega yrðu það um 2 milljarðar kr. á fjárlagaárinu næsta.

Það var líka annað sem þau frá Samtökum atvinnulífsins ræddu, áhyggjur af því að þegar sjóðurinn yrði kominn verulega langt niður, búinn að ganga afar mikið á eigið fé sem tekur kannski tvö ár að þeirra sögn, það kom fram hjá ráðuneytunum líka, kom fram hjá velferðarráðuneytinu í gær að innan tveggja ára yrði eigið fé sjóðsins líklega uppurið ef þessi prósenta yrði látin halda sér. Það sem Samtök atvinnulífsins höfðu áhyggjur af var að ef framlag í sjóðinn yrði ekki hækkað á næsta ári mundi það þýða mikla hækkun þegar sjóðurinn væri að verða blankur og þeir höfðu áhyggjur af því að það mundi allt saman lenda á atvinnulífinu en ekki verða dregið úr framlaginu til Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun fær sem sagt mismuninn í dag og þá er ég hrædd um að heyrðist hljóð úr horni ef þeir verða krafðir um það, það hlýtur að þurfa að hækka prósentuna töluvert ef ná á inn viðunandi fjárhæðum.

Sjúklingagjöld voru líka rædd, sem við höfum svo sem tekið töluverða umræðu um hér. Það sem kom helst fram hjá Landspítalanum hvað það varðaði, og mér var fannst í sjálfu sér gott innlegg í þá umræðu, var að þau tóku ekki beina afstöðu til pólitíkurinnar sem fylgir því eðlilega að leggja á einhver gjöld til eða frá, þó að þau hefðu auðvitað áhyggjur af því að þeim tækist ekki að innheimta þau gjöld. Það eru um 10% sem innheimtast ekki í dag af því sem þeim er gert að innheimta og því fannst þeim þetta ótímabært ef ekki lægi fyrir niðurstaða nefndar sem kennd hefur verið við hv. þm. Pétur Blöndal og er að endurskoða alla þessa þætti. Þau töldu að þá yrði væntanlega hrært í þessu fljótlega eftir áramótin og töldu það ekki gott vinnulag. Ég get nú verið því sammála að það sé ekki eins og við vildum hafa það, að minnsta kosti hef ég þá skoðun. Það er auðvitað líka bagalegt að gera ráð fyrir einhverjum tilteknum gjöldum eða sértekjum vitandi það að þær innheimtast ekki nema að litlu leyti. Það kom líka fram hjá þeim á Landspítalanum að færst hefði í aukana að fólk kæmi inn sem væri í erfiðari fjárhagslegri stöðu en oft hefur verið áður. Við þekkjum það og þá umræðu og þess vegna töldu þau jafnvel að það yrði enn erfiðara en verið hefði að innheimta gjöldin. Það eru 60% af innlögnum sem eru ekki fullgreidd — eða af þeim sem koma. Það hefur komið fram í staðfestu svari við fyrirspurn sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lagði fyrir velferðarráðherra.

Ég stikla á stóru og reyni að draga svolítið saman það sem maður hefur heyrt í umræðunni. Nú er verið að boða að taka niður VIRK-sjóðinn, það er verið að taka niður Nám er vinnandi vegur, ríkið hefur ákveðið að taka ekki þátt í eða fylgja fordæmi sveitarfélaganna með lækkun á verðlagsbreytingum eða öllu heldur að láta þær ekki ná fram að ganga og við erum augljóslega að fara inn í þungar kjaraviðræður sem ég held að ríkið þurfi með einhverju móti að koma inn í. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það ætti að vera nema ef vera skyldi þetta. Fram hefur komið hjá formanni Starfsgreinasambandsins og fleiri aðilum að þeir hafi áhyggjur af því að ef við förum inn í nýtt ár án þess að vera búin að semja þá séu fram undan lausir kjarasamningar, líka hjá hinu opinbera, sem geri það að verkum að hér gæti orðið ískalt ástand allt næsta ár og það er auðvitað afar erfitt.

Mig langar líka aðeins að nefna eitt enn. Við fjárlaganefndarmenn höfum fengið bréf frá óbyggðanefnd þar sem rætt hefur verið um að niðurskurðurinn sem boðaður er þar upp á 20 milljónir kr. geri það að verkum að þar þurfi að segja upp fólki og verkefni komi til með að dragast og við hvert ár sem við drögum verkefni muni verða mikill kostnaðarauki. Það að halda úti eðlilegri starfsemi með lágmarksfjárheimildum þýðir 80 millj. kr. kostnaðaraukningu árið 2019, það er fjórföldun á þeim 20 millj. kr. sem mundu sparast 2014, þ.e. ef verkefnið dregst. Það eru framkvæmdastjóri, lögfræðingur, landfræðingur og lögfræðingur sem starfa þar og þetta þýðir að uppkvaðning úrskurðar tefst um eitt ár og í raun er þetta sanngirnismál. Það er ekki sama staða á öllu landinu. Það er held ég um það bil 1/4 sem á eftir að fara í, þetta snýst um þjóðlendumál og hér er ekki búið að ganga frá þeim hluta af landinu þannig að hvorki íbúar né aðrir sem þar eiga heima eða gætu átt jarðir eða lönd, nú eða ríkið — það er óeðlilegt að ekki sé gengið frá því þannig að allt landið sé undir sama hatti hvað þetta varðar.

Þeir segja í stuttu máli að þá væri í flestum tilfellum óhagkvæmt, hvað varðar gagnaöflun og undirbúning úrskurða, að kljúfa þetta niður í smærri einingar í gagnaleit í einstökum sýslum, sveitarfélögum eða svæðum og telja að við það glatist talsvert af þeirri hagkvæmni sem felst í því að fjalla um svæðin í tiltölulega stórum einingum, t.d. vettvangsferðum og samnýtingu aðila á lögmannsaðstoð, en lögmannskostnaður málsaðila annarra en ríkisins er greiddur af óbyggðanefnd.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða líka. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en við fengum þetta erindi inn og með ágætisskýringum um það í rauninni hvernig þetta vindur upp á sig af því að stundum kostar að spara, eins og sagt er.

Í lokin langar mig að rifja aðeins upp það vinnulag sem hefur verið hjá okkur í nefndinni. Af því að boðað hefur verið að milli 2. og 3. umr. í fjárlögum komi 20 milljarða kr. tilfærslutilkynning og hugsanlega eitthvað meira varðandi þingsályktunartillöguna sem samþykkt var af ríkisstjórninni í sumar, þá upplifi ég pínulítið að manni sé stillt upp við vegg ef maður á að taka ákvörðun á mjög skömmum tíma um svo stórar fjárhæðir sem verða þar undir. Ég hef því töluvert miklar áhyggjur. Við getum hugsanlega ekki kallað til þá gesti sem við mundum vilja fá til skrafs og ráðagerða og fá nánari útskýringar hjá. Við erum að renna inn í helgina, dagarnir eru fljótir að líða og við eigum eftir 2. umr., klára þessa umræðu, 3. umr. í fjárlögum og fjáraukalögum, við eigum eftir bandorminn, 2. og 3. umr. í síðari bandormi þannig að það er ótrúlega mikið eftir. Fyrir utan öll önnur mál auðvitað sem hér eru undir þá held ég að afar langt sé síðan að fjárlögin hafi verið rædd svona seint. Það hefur vissulega komið fyrir en ég held að það sé afar langt síðan 2. umr. hefur farið fram svona seint.

Frumvarpið kemur til okkar í fjárlaganefnd aftur og þar sem töluvert margar hugmyndir hafa vaknað er augljóst að við þurfum að fá fólk til okkar til að útskýra og ræða margt, fá að vita hvaða áhrif eitt og annað hefur o.s.frv. Ég held að við séum því miður runnin út á tíma fyrir jólin með að klára öll þessi mál sem fyrir okkur liggja en auðvitað vonar maður að við náum einhverri lendingu í þessu. En ef við erum að tala um ábyrg, gegnsæ vinnubrögð þá hlýtur það líka að kosta tíma. Ef við ætlum að vinna þetta mjög hratt þýðir það meiri hættu á alls konar yfirsjón og öðru sem annars væri kannski ekki til staðar, þ.e. ef við hefðum nægan tíma til að ræða þessi mál.