143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom nú ekki fram hjá Landspítalanum hvað varðaði rekstrarframlagið. Það er augljóst að sú viðbót sem verið er að setja inn núna, 1.600 millj. kr., er sett bæði í rekstur og viðhald og annað því um líkt. Fram hefur komið að það stefnir í 1,5 milljarða halla á þessu ári þannig að það er augljóst að þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að 2/3 af eldri skuld Landspítalans verði afskrifaðir kemur spítalinn til með að sitja uppi með töluvert mikinn halla áfram. Ekki veit ég hvort þeir verða virkjaðir aftur þessir samningar sem kveða á um að halda sér innan ramma fjárlaga í þrjú ár til þess að þetta geti endurtekið sig en þá þýðir það auðvitað að ef framlögin í reksturinn verða ekki aukin enn frekar þá veltir hann miklum halla á undan sér.

Varðandi verklag og framlagningu fjárlagafrumvarpsins þá höfum við gagnrýnt það töluvert mikið og ég held að það sé málefnaleg gagnrýni. Það er rétt að frestur var lengdur og þingsköpin kveða á um annan þingsetningardag, hann var færður til aftur. Vel má vera að ný ríkisstjórn þurfi aukið svigrúm á kosningaári en ég held að það geti bætt ferla í þessu samhengi. Ég vona að ákvæði í nýju fjárreiðulögunum, um að leggja þurfi fram á næsta ári útgjaldaramma í apríl, geti orðið til þess að einhver mynd komist að minnsta kosti á það sem við getum svo frekar unnið með, allt til að flýta fyrir.