143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að mér fannst töluverður byrjendabragur á framlagningu fjárlagafrumvarpsins; þetta eru jú ekki nýir menn í pólitík í sjálfu sér þó að þeir hafi ekki setið á ráðherrastólum áður. Það var nú pínulítið skondið að hæstv. fjármálaráðherra stóð varla með sínu eigin frumvarpi í sólarhring. Þá var farið að draga úr því og tala á þann veg að þetta væru bara einhverjar tillögur og eitthvað slíkt og það kemur frá honum sjálfum. Auðvitað fannst manni það svolítið sérkennilegt, ég játa það alveg.

Þegar ég byrjaði að lesa fjárlagafrumvarpið þá fannst mér strax að þetta væri svolítið embættismannslegt, eða ég hafði það á tilfinningunni að þetta væri svolítið þannig. Þrátt fyrir að þingið eigi að hafa aðkomu að — og það á að gera það — slíku frumvarpi þá finnst manni sérstakt að það sé ekki gert fyrr en á síðari stigum. Mér fyndist betri bragur á því að það væri fyrr. En vissulega er það þannig að þegar menn segja í kosningabaráttu að þetta sé allt klárt, hvernig eigi að gera þetta — það megi helst ekki ljóstra því upp af því að þá geti einhverjir aðrir tekið hugmyndirnar o.s.frv.; það var það sem ég heyrði í kringum mig í minni kosningabaráttu — þá einhvern veginn kom þetta mjög mikið á óvart.

Það kom líka á óvart hversu gríðarlega miklar breytingar er verið að gera við 2. umr. Háar fjárhæðir og mér segir svo hugur að það sé ekki allt búið enn, að enn eigi eftir að gera töluvert miklar breytingar fyrir utan þessi skuldamál sem tillaga á eftir að koma fram um.