143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er rétt, eins og við vitum, að töluverður niðurskurður hefur verið undanfarin ár í kjölfar hrunsins. Þegar staðan var 216 milljarðar kr. í mínus var eðlilega ekki annað hægt. Við höfum ekki fengið öll ráðuneyti á fund okkar í fjárlaganefnd en fengum þau nokkur. Það er rétt að það er töluvert mikið höggvið í utanríkisráðuneytið, það er ekki nóg með þann niðurskurð sem er þar undir heldur sjáum við hér tillögu upp á tæplega 48 millj. kr. sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði eftir og biðlaði til meiri hluta fjárlaganefndar að reyna að bæta ráðuneytinu það upp. Það er því höggvið sérstaklega mikið skarð, held ég, í utanríkisráðuneytið.

Það sem kom fram hjá fulltrúum þeirra ráðuneyta sem komu til okkar var að launakostnaður er, eins og við þekkjum, stærsti pósturinn í öllum ráðuneytum. Þetta þýðir að einhver verkefni halda ekki áfram, einhver verkefni sem fyrirhuguð voru komast ekki á koppinn og ef þetta væri eingöngu mælt í mannskap væru það á bilinu 4–5 starfsmenn í hverju ráðuneyti. Þetta kom flatt upp á starfsmenn og maður fann að þetta var sumum sem komu til okkar áfall, það var erfitt. Ég upplifði það að minnsta kosti þannig, að svoleiðis væri tilfinningin fyrir þá. Mér er minnisstætt að úr menntamálaráðuneytinu kom til dæmis PISA, eða eitthvað undir, og maður fer að hugsa að þegar talað er um læsi eða ekki gott læsi er eitt af því sem við höfum notað til að miða okkur við þátttaka í PISA.