143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ef við viljum meiri sátt um tekjur og útgjöld ríkisins þarf minni hluti þingsins að hafa einhver önnur verkfæri til að stöðva meiri hlutann í því að ganga gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar en að halda langar ræður, hverja á fætur annarri í 2. umr. um frumvörp. Það er eina verkfærið í dag sem minni hlutinn hefur til þess að stöðva meiri hlutann í því að leggja fram lagafrumvörp eða hafa ákvæði í lagafrumvörpum sem ganga klárlega gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Eitt slíkt verkfæri væri að 1/3 hluti þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú styttist í að við fáum rafrænar kosningar á Íslandi, það var í fréttum að Þjóðskrá væri að undirbúa slíkt, þannig að kostnaðurinn við slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur væri þar af leiðandi ekki mikill. Það sem þetta mundi líka þýða er að þriðjungur þingmanna mundi ekki vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann teldi að meiri hluti þjóðarinnar mundi fella málin, væri ekki sammála minni hlutanum. Það er ekkert sérstaklega skynsamlegt að senda slík mál en óumdeild atriði væri hægt að senda.

Þetta þýddi líka að menn ynnu í meiri sátt á þinginu. Ef meiri hlutinn vissi að hann gæti ekki bara valtað yfir minni hlutann og þjóðarviljann ynni hann hlutina í meiri sátt og líka náttúrlega af meiri fagmennsku. Það hefur ekki verið haldið nógu vel á spöðunum við gerð þessa fjárlagafrumvarps. Ítrekað hefur verið kvartað yfir því hversu lítið hafi verið fundað í til að mynda fjárlaganefnd. Þetta hefur allt komið fram í ræðum síðustu daga, á þessum síðustu þingfundum. Staðan er því sú núna að það eru ákvæði í fjárlögum sem minni hlutinn er ósammála og vill fá felld út og önnur atriði sem hann vill fá sett inn, og sum af þessum atriðum eru klárlega eitthvað sem meiri hluti þjóðarinnar er ekki með, eins og því að taka komugjöld af sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á spítala. Það er nokkuð sem klárlega meiri hluti þjóðarinnar er ekki hlynntur.

Þá er það spurningin: Hvað er í gangi núna? Nú er það í gangi sem kallast málþóf þannig séð til þess að skapa grundvöll fyrir þeim samningum sem eru í vinnslu. Formennirnir eru búnir að reyna að semja um þinglokin fyrir jólin og nú langar mig að lesa tíu reglur um svoleiðis samningaviðræður úr athyglisverðum lista, um hvað er í gangi þannig að fólk geti skoðað þessar grunnreglur samningatækni og ímyndað sér hvað er að gerast á fundum formannanna.

Byrjum á reglu nr. 2. Þar segir, með leyfi forseta:

„Importance of Aiming High. The slogan „aim high“ has a great deal of relevance for successful negotiators because the expectation level of negotiators is closely related to the outcome of the negotiations.“ (ÁÞS: Þingmálið er íslenska.)

Með leyfi forseta, getur forseti úrskurðað hvort ekki megi vitna í enskan texta? Ég held að það sé rétt.

(Forseti (ValG): Forseti ætlar að þessu sinni að leyfa hv. þingmanni að vitna í ensku en hann kannski fer yfir það í stuttu máli á íslensku.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það sem er verið að tala um hérna er það að í „aim high“, með leyfi forseta, felist að koma með miklar kröfur í upphafi. Ef við horfum á gerð þessa fjárlagafrumvarps og hvernig stjórnarliðar leggja það fram vita þeir auðvitað af því að þetta gerist í hvert einasta skipti við fjárlagagerð að menn reyna að ná einhverjum samningum í restina og þá er þessu verkfæri beitt, að tala út í hið óendanlega við 2. umr. þangað til samningar nást. Þegar maður veit þetta leggja stjórnarliðar inn í fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvarpið ákvæði sem þeir vita að minni hlutinn getur ekki sætt sig við, að sjálfsögðu, eins og það að taka út þetta hótelgjald á sjúkrahúsunum og setja komugjald í staðinn. Þetta er alveg klassískt dæmi, að sjálfsögðu vita þeir að minni hlutinn getur ekki sætt sig við það og það verður eitt af því sem þeir geta þá notað sem svona „bargaining chip“, með leyfi forseta, til að geta sagt: Ókei, við tökum þá þetta út, og vita náttúrlega að þetta er það sem er verið að semja um sem og önnur atriði. Stjórnarliðar væru náttúrlega ekkert að vinna vinnuna sína ef þeir gerðu þetta ekki.

Ég bendi aftur á að þetta er leikurinn sem er í gangi. Þá er verið að setja inn alls konar aðra hluti, eins og það að fólk sem er á atvinnuleysisbótum fái ekki jólabónusinn. Með því eru stjórnarliðar að reyna að skapa sér svigrúm en það er samt frekar ógeðfellt að láta það bitna á fólki sem hefur búist við þessu og hefur raunhæfar væntingar til þess að fá jólabónusinn þegar þeir skapa sér samningsstöðu með því að hóta því eða leggja til að þessi jólabónus komi ekki. Það er frekar ógeðfellt, ef maður hugsar það, rétt fyrir jólin að bjóða fólki upp á það óöryggi. Og aftur bendi ég á að það þurfa að vera einhver önnur úrræði fyrir minni hlutann en að standa í þessu málþófi hérna, geta þá kannski vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef stjórnin ætlaði að setja inn einhver svona ákvæði sem klárlega flestir eru á móti þyrfti hún að sitja uppi með það að þjóðin hafnaði því.

Ég reyni bara að þýða þessi atriði hérna.

(Forseti (ValG): Forseti biður þingmanninn að halda sig við íslensku.)

Já, sagði ég eitthvað á ensku núna, frú forseti? Ég spyr.

(Forseti (ValG): Nei.)

Nei, ókei. Ég var að segja að ég ætlaði að þýða.

(Forseti (ValG): Já, fínt.)

Ókei, já. Þú hlustaðir kannski ekki nógu vel.

Gefðu sjálfum þér rými til málamiðlunar. Málamiðlun er grundvallaratriðið til að ná árangursríkri niðurstöðu í samningaviðræðum. Jafnvel hinir færustu samningamenn verða að miðla málum að einhverju leyti til að ná árangursríkri niðurstöðu.

Þarna komum við aftur að því sama. Menn vita að viðsemjandinn setur markið hátt, setur inn atriði sem hann getur síðan samið um og svo semur hann um þau. Þannig fær hann þá niðurstöðu sem hann vildi raunverulega alltaf fá. Vitanlega er þetta í gangi, annars væru menn ekki að vinna vinnuna sína.

Svo er regla nr. 4, að setja pressu á hinn samningsaðilann. Vegna þeirrar pressu sem er innifalin í hverjum einustu samningaviðræðum næst árangur af þeim að miklu leyti vegna getu samningsaðila til að auka pressuna á hinn aðilann og minnka pressuna á sjálfan sig á sama tíma.

Þá er spurningin: Hvaða pressa er núna í gangi? Báðir aðilar eru að pressa á hinn aðilann, minni hlutinn hefur þá pressu að halda málþófinu gangandi, vera hérna frá kl. 10.30 á morgnana fram á nótt. Menn geta skipt með sér verkum og þetta er ekkert mikil pressa. Það er kannski meiri pressa þegar dregur nær jólum. Þá vill fólk komast heim og vera með fjölskyldunum sínum. Þarna mundi ég segja að pressan væri þá meiri á minni hlutann af því að meiri hlutinn og stjórnarherrarnir sem vilja ná fram sínu geta sent nokkra, þeir þurfa ekki að hafa marga þingmenn á svæðinu og geta þá flestir fengið að halda jól ef þetta mundi halda fram yfir aðfangadag. Á sama tíma kemur pressan á stjórnarherrana að vera ekki algjörlega óbilgjarnir. Það held ég að sé stóra pressan því að þeir hafa í rauninni öll vopn í sínum höndum hvað þetta varðar. En það væri frekar óbilgjarnt af þeim að vera með þetta fram á aðfangadagskvöld og þá mundu einhverjar raddir heyrast úr samfélaginu.

Þá komum við að reglu nr. 5, ekki sýna veikleikana. Nú er ég að greina þessa stöðu og er ekkert í þessu karpi sjálfur þannig séð. Hérna kemur: Aldrei gefa upp upplýsingar um veikleika eða styrkja samningsstöðu hins aðilans.

Þessi regla er sjálfsögð en þó að hún sé það er oft horft fram hjá þessu og menn gleyma þessum lið.

Regla nr. 6 er að nota eftirgjöfina af skynsemi. Málamiðlun er lykilatriði við samningaviðræður og árangursríkir samningamenn eru meistarar í því að vita hvenær á að stíga til baka, hvenær á að gefa eftir til að ná sem mestum árangri.

Svo heldur þetta hérna áfram, regla nr. 9, notaðu — ég bara man ekki þetta orð í svipinn, því er stolið úr mér. Ég fer þá á næsta lið. Nei, nú ætla ég að gera annað. Mig langar að fara yfir fjárlagatillögur ungra sjálfstæðismanna til að sjá hvort það er ekki eitthvert svigrúm sem stjórnvöld geta nýtt sér til að verða við einhverjum af þessum kröfum frá minni hlutanum og sjá hvar þetta svigrúm er að finna. Þetta er gott plagg ungra sjálfstæðismanna, Fjárlagatillögur SUS 2014, með leyfi forseta, Stöndum vörð um grunnstarfsemina.

Það er nú eitt, að standa vörð um grunnstarfsemina, eins og grunnheilbrigðisstarfsemi sem einmitt meiri hluti er sammála um að setja í forgang. Ætli 95% þjóðarinnar séu ekki sammála um það?

Hérna segir í 1. lið: Samantekt og kynning, með leyfi forseta:

„Í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, sem kynnt var þann 1. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir afgangi af heildarjöfnuði sem nemur 0,5 milljörðum króna árið 2014. Ungir sjálfstæðismenn telja ástæðu til að fagna því, enda hefur ríkið verið rekið með tapi síðustu sex ár.

Ungir sjálfstæðismenn hvetja jafnframt ríkisstjórnina til að samþykkja ekki breytingar á fjárlögunum sem verða þess valdandi að 0,5 milljarða króna afgangurinn verði að tapi. Þá er mikilvægt að ný ríkisstjórn herði þegar í stað á aga við framkvæmd fjárlaga.

Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir 458,7 milljóna króna afgangi á rekstri ríkissjóðs. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 587,6 milljarðar króna, skatttekjurnar 534,3 milljarðar króna og heildarútgjöld 587,1 milljarður króna.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður, það er afkoma ríkissjóðs án vaxta- og fjármunagjalda, verði um 56 milljarðar króna. Jákvæður frumjöfnuður gefur vissulega til kynna að hreinn rekstur ríkisins, tekjur á móti rekstrarútgjöldum, sé jákvæður. Vinstri stjórnin, sem hrökklaðist frá völdum seinasta vor, lagði til dæmis mikla áherslu á þann hátt fjárlaga. Slík útskýring er þó með öllu tilgangslaus. Þeir sem bera ábyrgð á rekstri ríkissjóðs geta ekki látið eins og vaxtagjöld séu ekki til. Ekki frekar en að heimili geti látið eins og afborganir skulda séu ekki til.

Í raun mætti segja að vaxtagjöld ríkissjóðs væru næststærsta ráðuneytið. Gjöldin nema tæpum 76 milljörðum króna á næsta ári en sem dæmi nema útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins 66,7 milljörðum króna. Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar er að greiða niður skuldir og draga þar með úr þessari miklu vaxtabyrði. Vaxtakostnaðurinn verður ekki lækkaður nema með hraðari uppgreiðslu skulda en áður var gert ráð fyrir.

Skuldir ríkisins eru um 1.950 milljarðar króna. Það gefur augaleið að þörf er á mun meiri afgangi í rekstri ríkissjóðs en gert er ráð fyrir á næsta ári. Rétt eins og heimilin þurfa að hafa stjórn á útgjöldum til að ná endum saman verða stjórnmálamenn að hafa dug í sér til að draga með verulegum hætti úr ríkisútgjöldum. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin stefni að hallalausum rekstri á næsta ári en afgangurinn er því miður allt of lítill. Ríkisstjórnin verður að leggja megináherslu á lækkun skulda ríkissjóðs á kjörtímabilinu. Það þýðir að hún verður að forgangsraða rétt og marka nýja braut í skipulagi ríkisins. Ef haldið verður áfram í fari ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er hætt við því að framtíðarkynslóðir Íslendinga muni festast í skuldafjötrum sem sér ekki fyrir endann á.

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) telur sem fyrr að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins og leggur hér til að útgjöld ríkisins verði lækkuð í það minnsta um 83,5 milljarða króna. Verði farið að tillögum SUS, sem bitna ekki á mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfinu, má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs auk þess sem hægt væri að lækka skatta og hefja niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.“

Svo er 2. liður í þessum tillögum, Sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs má, líkt og fyrri ár, finna fjöldamörg verkefni sem eiga ekki að vera á borði hins opinbera. Þar er ýmist um að ræða óþarfaverkefni eða verkefni sem væru betur komin í höndum einstaklinga.

Hér á eftir fara ítarlegar sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna. Eins og áður koma þær ekki niður á velferðar-, heilbrigðis- eða menntakerfinu. Tillögurnar eru settar fram á hugmyndafræðilegum grunni í þeim tilgangi að benda á hvernig ríkisreksturinn gæti verið betri og einfaldari en hann er í dag. Þannig er tillögunum ætlað að gefa mynd af því hvernig haga mætti ríkisfjármálum betur.

Þá er rétt að minna á að skatttekjur ríkisins verða ekki til af sjálfu sér. Fjármagn er tekið úr vösum vinnandi manna og því varið í fjölmörg verkefni sem eru, oft á tíðum, aðeins stjórnmálamönnum hverju sinni að skapi.

Ungir sjálfstæðismenn hafa farið yfir hvert ráðuneyti fyrir sig ásamt æðstu stjórn ríkisins. Í töflum má finna þau atriði sem ýmist má leggja niður eða færa úr höndum hins opinbera í hendur einstaklinga. Nánari skýringar fylgja í greinargerð með hverju ráðuneyti. Allar tölur eru í milljónum króna.

Í eftirfarandi töflu má sjá samantekt á sparnaðartillögum SUS flokkað eftir ráðuneytum. Lagt er til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 85,4 milljarða króna. Eins og sjá má í töflunni eru tillögurnar misviðamiklar. Þannig er lagt til að nær öll útgjöld atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins falli niður (92%) og stór hluti af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (73%). Hins vegar er lítið hreyft við velferðarráðuneytinu (1%).“

Fyrir æðstu stjórn ríkisins eru greiddar úr ríkissjóði 4.007,8 milljónir. Sparnaðartillögur SUS eru 0 og sparnaður af beinum útgjöldum þar af leiðandi 0%.

Fyrir forsætisráðuneytið er greidd úr ríkissjóði 2.959,1 milljón. Sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 1.386,3 milljónir og er sparnaður þá af beinum útgjöldum fyrir forsætisráðuneytið upp á 47%.

Fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið eru greiddar úr ríkissjóði 64.304,9 milljónir. Sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 24.800,9 milljónir. Þá er sparnaður af beinum útgjöldum upp á 39%.

Fyrir utanríkisráðuneytið er greidd úr ríkissjóði 11.508,1 milljón og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 4.085,4 milljónir og sparnaður þá af beinum útgjöldum til utanríkisráðuneytisins er 36%.

Fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 25.644,4 milljónir og sparnaðartillögur SUS 23.584,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 92%.

Fyrir innanríkisráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 54.974,9 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 22.831 milljón. Sparnaður þá af beinum útgjöldum hjá innanríkisráðuneytinu hljóðar upp á 42%.

Fyrir velferðarráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 174.923,2 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á ekki nema 1.982,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 1%.

Fyrir fjármála- og efnahagsráðuneyti eru greiddar úr ríkissjóði 50.686 milljónir, sparnaðartillögur SUS eru 963,8 milljónir. Þá er sparnaður af beinum útgjöldum til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 2%.

Fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið eru greiddar 5.341,3 milljónir, sparnaðartillögur SUS eru 3.909,7 milljónir og þá er sparnaður af beinum útgjöldum 73%.

Samtals eru greiddar úr ríkissjóði 394.349,7 milljónir og sparnaðartillögur SUS hljóða upp á 83.544,5 milljónir og þá hljóðar sparnaður af beinum útgjöldum upp á 21%.

„2.1 Æðsta stjórn ríkisins.

Undir liðinn Æðsta stjórn ríkisins fellur meðal annars embætti forseta Íslands, Alþingi, ríkisstjórn Íslands, Ríkisendurskoðun og Hæstiréttur. Heildarútgjöld ríkisins undir þessum lið nema um 4 milljörðum króna. Athygli vekur að útgjöld ríkisins til æðstu stjórnar hafa aukist á milli ára, þvert á væntingar ungra sjálfstæðismanna. Vissulega má draga úr útgjöldunum en aðeins fimm prósenta sparnaður mundi, svo dæmi sé tekið, nema um 200 milljónum króna.

Endurskoða má hlutverk Ríkisendurskoðunar. Einkaaðilar væru betur til þess fallnir að endurskoða reikninga ríkisins og vinna að úttektum. Engar forsendur liggja þó fyrir um það hversu mikið fjármagn mundi sparast við slíkan tilflutning.“

Í lið 2.2 um forsætisráðuneytið leggja ungir sjálfstæðismenn til að nokkrir liðir verði teknir af fjárlögum.

Hinu íslenska fornritafélagi eru á fjárlögum 2014 ætlaðar 10 milljónir og tillaga SUS er að það verði allt saman tekið út.

40 milljónir sem eru áætlaðar í efnahagsrannsóknir verði ekki veittar. 9,8 milljónir verði ekki veittar í Jafnréttissjóð.

Það er einfaldara bara að segja að allt sem er nefnt verði bara tekið af fjárlögum, svo sem samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna 3,2 milljónir, ýmis verkefni 43 milljónir, ráðstöfunarfé 2,5 milljónir, Vest-norrænt menningarhús í Kaupmannahöfn 12,1 milljón, óbyggðanefnd 82,7 milljónir, atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa 86 milljónir, græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og :menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. 190 milljónir, Þjóðminjasafn Íslands 501,3 milljónir, Minjastofnun Íslands 127,7 milljónir, Fornminjasjóður 31,6 milljónir, húsafriðunarsjóður 45,1 milljón og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum 201,3 milljónir.

Við þessi verkefni og stofnanir sem heyra undir forsætisráðuneytið hljóða sparnaðartillögur SUS upp á 1.386,3 milljónir kr.

„Eins og sjá má leggja ungir sjálfstæðismenn til tæplega 1,4 milljarða króna beinan sparnað hjá forsætisráðuneytinu. Það er heldur meira en seinustu ár í krónutölum sem helgast af því að ýmsar stofnanir, svo sem Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands, hafa verið færðar á milli ráðuneyta.

Það er ekki hlutverk hins opinbera að starfrækja söfn. Söfn eiga að vera rekin af einkaaðilum sem fjármagna þau með styrkjum frá einstaklingum og aðgangsgjaldi. Á þessu eru engar undantekningar. Þá er rétt að vekja athygli á því að sértekjur Þjóðminjasafns Íslands hafa stóraukist síðastliðin ár samhliða aukinni fjölgun ferðamanna hingað til lands.

Hvað Þjóðgarðinn á Þingvöllum varðar er, líkt og fyrri ár, ekki lagt til að hann verði lagður niður heldur að rekstur hans verði tekinn af fjárlögum. Þjóðgarðurinn fær um 65 milljónir króna í aðrar tekjur og hafa þær farið vaxandi síðustu ár. Réttast væri að rekstur hans yrði sjálfbær með eigin tekjum.

Heildarsparnaður ráðuneytisins getur samkvæmt tillögum SUS verið um 47% af beinum útgjöldum ráðuneytisins.“

Í lið 2.3 er fjallað um mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ungir sjálfstæðismenn leggja til að upptaldir liðir verði teknir af fjárlögum, verkefni og stofnanir, svo sem hér segir:

Ráðstöfunarfé 6 milljónir, Tilraunastöð Háskólans að Keldum 205,2 milljónir, Raunvísindastofnun Háskólans 1.315,1 milljón, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 309,6 milljónir, Rannsóknamiðstöð Íslands 275,1 milljón, Markáætlun á sviði vísinda og tækni 192,5 milljónir, Rannsóknasjóður 1.135 milljónir, Innviðasjóður 106 milljónir, Nýsköpunarsjóður 49,5 milljónir, Námsgagnastofnun 475,8 milljónir, Lánasjóður íslenskra námsmanna 8.358 milljónir, Þjóðskjalasafn Íslands 297,7 milljónir, Landsbókasafn Íslands 792,5 milljónir, Listasafn Einars Jónssonar 17,5 milljónir, Listasafn Íslands 201,8 milljónir, Kvikmyndasafn Íslands 53,2 milljónir, Hljóðbókasafn Íslands 87,4 milljónir, Náttúruminjasafn Íslands 23,8 milljónir, Gljúfrasteinn 31,9 milljónir, Safnasjóður 120,1 milljón, söfn og menningarminjar 43,9 milljónir, fjölmiðlanefnd 47,3 milljónir, Harpa 667,6 milljónir, viðhald menningarstofnana 103,1 milljón, Ríkisútvarpið 3.514 milljónir, Íslenski dansflokkurinn 127,5 milljónir, Þjóðleikhúsið 748,9 milljónir, Sinfóníuhljómsveit Íslands 762,4 milljónir, Launasjóðir listamanna 523,4 milljónir, Listskreytingasjóður 1,5 milljónir, Kvikmyndamiðstöð Íslands 735,3 milljónir, listir 951,1 milljón, ýmis fræðistörf 92 milljónir, norræn samvinna 17 milljónir, rammaáætlanir ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun 1.536 milljónir, æskulýðsmál 172,4 milljónir, ýmis íþróttamál 521,5 milljónir og ýmislegt 182,3 milljónir.

Sparnaðartillögur SUS hljóða því upp á 24.800,9 milljónir kr.

„Bein útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins nema um 64,3 milljörðum króna. Eins og gefur að skila rennur stór hluti þess fjármagns til menntastofnana, það er framhaldsskóla, háskóla og endurmenntunarstofnana.

Ungir sjálfstæðismenn fagna því að til standi að stytta nám til stúdentsprófs þannig að þrjú ár verði eðlilegur tími til að ljúka námi til stúdentsprófs. Þannig væri hægt að ná fram hagræðingu í menntakerfinu.

Þrátt fyrir að ungir sjálfstæðismenn leggi ekki til að hreyft verði við menntakerfinu að sinni telja þeir að draga megi verulega úr útgjöldum ráðuneytisins.

Eins og áður kom fram telur SUS það ekki vera hlutverk ríkisins að starfrækja söfn — hvað þá að skattgreiðendur séu látnir greiða fyrir þau.

Þá er það ekki hlutverk ríkisins, heldur fólks og fyrirtækja, að styrkja menningu. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvað sé góð menning og vond menning, líkt og nú er gert, með því að mismuna einum menningarhópi umfram annan. Þess vegna á ríkið að láta af styrkjum til tónlistarhússins Hörpu, Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitarinnar, Íslenska dansflokksins og annarra skyldra málaflokka. Það þarf ekki að þýða að þessar stofnanir verði lagðar niður, heldur að þær verði fjármagnaðar með öðrum hætti.

Það eru gríðarleg vonbrigði að framlög skattgreiðenda til tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu skuli nema tæpum 670 milljörðum króna á næsta ári og að þau muni hækka um meira en 100 milljónir á milli ára. Framlög til Hörpu hafa hækkað mikið á undanförnum árum, þrátt fyrir innantómar yfirlýsingar um annað, og lítur allt út fyrir að þau muni hækka enn meira á næstu missirum.

Hvað Ríkisútvarpið (RÚV) varðar, þá hefur það verið stefna ungra sjálfstæðismanna í áraraðir að einkavæða fyrirtækið. RÚV hefur verið skattgreiðendum þung byrði í áranna rás ásamt því að hafa komið í veg fyrir heilbrigða samkeppni margra einkarekinna fjölmiðla. Rétt er að stíga skrefið til fulls sem fyrst og koma fyrirtækinu úr höndum ríkisins.

Heildarsparnaður ráðuneytisins getur samkvæmt tillögum SUS verið um 39% af beinum útgjöldum ráðuneytisins.“

Nú á ég eftir eina mínútu. Eigum við ekki bara að húrra okkur í gegnum utanríkisráðuneytið og geyma atvinnu-, nýsköpunar- og fleiri ráðuneyti til næstu ræðu sem ég þarf kannski að halda? Við sjáum til hvernig þeim tekst að semja um þetta allt saman.

Ungir sjálfstæðismenn leggja til að eftirfarandi liðir utanríkisráðuneytisins verði teknir af fjárlögum: Ýmis verkefni 78,7 milljónir, ráðstöfunarfé 3,5 milljónir, Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1.777,5 milljónir, þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi 2.225,7 milljónir.

Sparnaðartillögur SUS hljóða þá upp á 4.085,4 milljónir.

„Ungir sjálfstæðismenn leggja til að útgjöld utanríkisráðuneytisins verði skorin niður um tæpa 6 milljarða króna. Það munar mestu um tillögur SUS um að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður og að öll útgjöld til þróunarmála verði lögð af.

Rétt er að endurhugsa öll atriði er varða þróunaraðstoð áður en stjórnmálamenn taka sig til og verja stórfelldu skattfé, í þessu tilfelli um fjögur þúsund milljónum króna, í þróunarmál. Stefna allra ríkja ætti að vera að auka alþjóðaviðskipti enda hefur það sýnt sig að besta þróunaraðstoðin er frjáls viðskipti.“

Ég kemst ekki í gegnum meira núna og tek þetta síðar.