143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst desemberuppbótin vera spurning um væntingar. Fólk hefur gert ráð fyrir að fá þessa desemberuppbót, það hafði væntingar til þess, það hefur gert ráðstafanir um fjárhag sinn í samræmi við það.

Þá vil ég í því ljósi vitna í einn hægri sinnaðasta þingmann Bandaríkjanna, Ron Paul, en ég er mikill aðdáandi hans. Hann er mikill málsvari frelsis og vill að fólk fái tækifæri til að velja sjálft, þ.e. hvort það vill taka þátt í velferðarkerfinu. Samt sem áður segir hann að það sé ekki hægt að klippa á það einn, tveir og þrír, og talar þá um gamla fólkið til dæmis sem er búið að vinna að því að byggja upp þetta kerfi og hefur væntingar til þess. Það sé ekki hægt að kippa því burt. Þetta kemur frá einum hægri sinnaðasta þingmanni Bandaríkjanna, honum finnst ekki heldur að það megi taka svona af fólki bara einn, tveir og þrír, af því að fólkið hefur réttmætar væntingar til þess. En hann vill gefa unga fólkinu tækifæri til þess að ákveða sjálft hvort það vill taka þátt í kerfinu.

Í þessu tilfelli eru réttmætar væntingar atvinnulausra, þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum, um að fá uppbótina og Ron Paul mundi ekki vera sammála því að kippa henni burt einn, tveir og þrír.