143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins bregðast við því sem hv. þingmaður nefndi um skólaskrásetningargjöldin. Ég þyrfti helst meira en tvær mínútur til að fara yfir það, eins og ég sé það mál fyrir mér eftir veru í efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem við vorum með þann þátt málsins sem snýr að heimild til hækkunar. Í raun þarf að lesa saman frumvarpið og nefndarálit meiri hlutans og skýringar í fjárlagafrumvarpinu, sem er að finna á bls. 279, og reyna að fá botn í hvernig þetta er.

Í fyrsta lagi eiga skrásetningargjöld að endurspegla raunkostnað háskólanna við skrásetningu og þau eru gjaldtaka af því tagi og það liggur einhvers staðar í nágrenni við 70 þúsund ef tekið er meðaltal af Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Það er eðlilegt að ætla að skrásetningargjöld séu þá innifalin í skólagjöldum skólanna sem hafa heimild til að taka skólagjöld og gera það enda skilst mér að LÍN meðhöndli málið á þann veg að draga frá lánshæfi skólagjaldanna þá fjárhæð sem nemur innritunargjöldum í opinberu háskólana til að jafnræðis sé gætt í því að ekki sé lánað fyrir innritunargjaldsþættinum. Það er því afar óheppilegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar skuli rugla þessum hugtökum saman og tala um hækkun skólagjalda þegar í reynd er á ferðinni hækkun skráningargjalda. Maður veltir auðvitað fyrir sér þeirri hugmyndafræði sem glittir í og er nauðsynlegt að taka fram að djúpur ágreiningur er í nefndinni um það orðalag sem meiri hlutinn setur hér í umfjöllun sína um skólagjöld, að þau séu góð til að menn tolli frekar í námi.

En ef ég staldra svo við fjárlagafrumvarpið á bls. 279 fæ ég ekki betur séð en háskólarnir séu skertir um hverja einustu krónu sem skráningargjöldin eru hækkuð um á nemendur. Það stendur ofarlega á bls. 279 en síðan fá þeir svolítið meiri tekjur, sem þeir fá að halda, vegna fleiri nemenda sem er annar hlutur. Mér sýnist þetta því vera hreinn skattur á nemendur í viðbót, opinber framlög til opinberra háskóla skert um hverja einustu krónu á móti.