143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað upp og skýra þetta svona út fyrir mér. Ég var farin að týnast svolítið í þessum skjölum, þetta er orðið mjög ruglingslegt allt saman. Ég hef helst áhyggjur af því að menn séu hér að skapa einhvers konar fordæmi sem námsmenn gætu hugsanlega látið reyna á. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 kemst nefndin að þeirri niðurstöðu sem tekin er saman hér, með leyfi forseta:

„… sumir töldu hækkun skrásetningargjalda of litla og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar.“

Lögin eru algerlega skýr með það að skrásetningargjöld á ekki að greiða fyrir nám eða rannsóknarstarf heldur eingöngu skrásetningu og þjónustu. Mér finnst það orðið afar óskýrt á hvaða leið menn eru hér.

Í þessu sama nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir líka:

„Að mati meiri hlutans er hækkunin studd sterkum rökum. Brýnt virðist orðið að koma til móts við fjárþörf opinberra háskóla.“

Svo er hv. þingmaður að fara yfir það hér að ekkert af þessu skilar sér til háskólanna. Ég spyr bara: Veit einhver hvað verið er að gera? Hafa þeir einhverja hugmynd um hvað þeir eru að gera? Greinilega ekki. Þeir líta svo á að með þessu séu þeir að mæta aukinni fjárþörf háskólanna en svo sýna fjárlagafrumvarpið og tillögurnar okkur eitthvað allt annað. Þetta á bara að fara í það að fjármagna ríkissjóð, heyrist mér.

Áfram segir:

„Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.“

Ég ætla þá að spyrja hv. þingmann, sem er nú eldri en tvævetur, hvort hann telji að þarna sé komið efni í að námsmenn láti á þetta reyna gagnvart LÍN og þá hugsanlega fyrir dómstólum.