143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt. Ég hef hlustað á hv. þingmann og reynt að vera jákvæð og skapandi og alla vega, en ég finn ekki neitt í fljótu bragði, ekki neitt, enda hefur það komið fram hjá aðilum á vinnumarkaði, verkalýðshreyfingunni, að það sé ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi sem sé til þess fallið að skapa þjóðarsátt eins og formaður fjárlaganefndar talaði um eða til þess að liðka til í kjarasamningum.

Sá hópur sem er undir 250 þús. kr. fær ekki neina lækkun á sköttum — og ég vil jafnvel fara aðeins ofar vegna þess að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar skila sér ekki að fullu nema til hópsins sem er efst innan millitekjuþrepsins, þ.e. þegar maður er kominn upp í 700 þús. kr. er maður í raun og veru farinn að fá skattalækkunina að fullu, það eru þingmannalaun. Sagt er við hópinn undir 250 þús. kr.: Heyrið, það eru engar skattalækkanir til ykkar en þið fáið hins vegar að bera sjúklingagjöld af fullum þunga.

Námsmenn eru einnig í lágtekjuhópunum, lifa af litlu. Við þá er sagt: Þið ætlið að fjármagna ríkissjóð með hækkun á skráningargjöldum. Í sumar var sagt þegar ákveðið var að gera breytingar og koma með hækkanir til lífeyrisþega að þær færu ekki til þeirra sem hafa lægsta lífeyrinn vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn hefði gert svo mikið fyrir þá, nú væri komið að lífeyrisþegum sem væru í efri tekjuþrepunum að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Þetta er meðvituð stefna. Ég spurði hvort menn væru meðvitað að breikka aftur bilið milli ólíkra tekjuhópa og svarið var einfaldlega: Já. Það sem við erum að sjá hér er bara hægri stefnan í verki, (Forseti hringir.) auknar álögur á þá sem minnst hafa og álögum létt af þeim sem mest hafa.