143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili þurftum við að kljást við atvinnuleysi hér á landi sem var mjög mikið í okkar sögulega samhengi. Þá skipti sterk Vinnumálastofnun og vinnumarkaðsúrræðin þar öllu máli til að ná atvinnuleysi niður. Það var gríðarlega mikil og góð vinna unnin innan þeirra raða til að atvinnuleysi gæti minnkað hér með alls kyns úrræðum. Ég hef áhyggjur af þeim núna þegar menn hafa tekið þessa ákvörðun. Fyrir utan auðvitað hvað þetta er gríðarlegt högg fyrir bæjarfélagið sem hér er nefnt. Ég held að við ættum að hafa miklar áhyggjur af því. Mér finnst að nefndin ætti að fara dálítið yfir það atriði og fara líka yfir hvaða áhrif þetta mun hafa á þau vinnumarkaðsúrræði sem Vinnumálastofnun hefur verið að vinna að og þá í framhaldi hvaða áhrif þetta hefur á atvinnuleitendur. Ég lít svo á að nefndin hljóti enn að hafa verk að vinna að fara yfir áhrifin af þessum niðurskurði.