143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal vera skýrari. Árið 2011 var tekin ákvörðun hér í þingsal um að samþykkja þingsályktun um aukin fjárframlög til þróunarmála. Ég tók þátt í því ásamt þingheimi öllum að undanskildum einum þingmanni sem treysti sér ekki til að taka þátt í því. Sá þingmaður stendur núna fyrir því, fer fremstur í flokki þeirra sem eru að skera niður tillögur fjármálaráðherrans um framlög til þróunarmála. Við stóðum í blóðugum niðurskurði á öllum sviðum ríkisins á síðasta kjörtímabili og ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum að fráfarandi ríkisstjórn tók við gati upp á 216 milljarða kr. Þegar fórum að sjá til sólar í því verkefni fórum við að leggja drög að því hvernig mætti auka í þar sem helst þyrfti á að halda til lengri tíma, þar á meðal til þróunarmála, og við gerðum það á þessu ári þegar við gátum það.

Menn gátu það aftur núna. Ríkisstjórnin lagði það til en þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar (Forseti hringir.) ákváðu að sækja þessa peninga og færa öðrum. Það er það sem við erum að mótmæla hér.