143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[23:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Þegar hlé var gert á þingfundi var ég að ræða málefni framhaldsskólanna og lýsa því að það megi aldrei verða að ungmennum sé vísað frá skólunum; og það er sérlega mikilvægt þegar atvinnuástand er eins og það er víða. Við erum með erfið svæði, svæði þar sem ungmennin hafa færri tækifæri en annars staðar til að ná sér í vinnu ef þau fá ekki skólavist, svæði sem eru félagslega þung fyrir; og ungt atvinnulaust fólk fær ekki heldur úrræði í anda verkefnisins Nám er vinnandi vegur, því að það er skorið niður á árinu 2014. Þetta er eitthvað sem við þurfum, hv. alþingismenn, að fylgja eftir og láta þá stöðu ekki raungerast sem ég er hér að lýsa áhyggjum mínum af.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað stefnubreytingar. Ég sagði fyrr í ræðu minni að ég styð áform um styttingu námstíma til stúdentsprófs og styttingu námstíma til starfsnámsprófa. Það er auðvitað stór og mikil aðgerð en hún skiptir máli í svo mörgu tilliti og ekki síst fyrir samkeppnisstöðu okkar ungmenna gagnvart jafnöldrum sínum í útlöndum. Við höldum fólki hér mun lengur í framhaldsskóla.

Við erum eina ríkið í OECD sem hefur verið með fjögurra ára nám til stúdentsprófs, eða við hleypum ekki fólkinu okkar fyrr en það er orðið 20 ára í sérhæfingu í háskóla. Mig minnir reyndar að Holland sé með fjögurra ára framhaldsskóla en nemendur þar byrja fyrr þannig að þeir útskrifast þar 19 ára gömul. Við höldum okkar fólki lengur í framhaldsskóla og það veikir samkeppnisstöðu ungmennanna gagnvart jafnöldrum sínum í útlöndum. Ég er tilbúin til að leggja mitt af mörkum til að ná fram skynsamlegri skipulagsbreytingu í framhaldsskólum. En ég vil ekki að hún sé gerð með þeim hætti sem ég óttast ef ég skoða breytingartillögur í fjáraukalögum og 6. gr. heimild í fjárlögum þar sem boðað er að það kunni að þurfa að grípa til aðgerða á árinu 2014 vegna skipulagsbreytinga í framhaldsskólum. Ég vara við því að fara eigi í þessar breytingar með látum og bið um að tekið verði tillit til nemenda, til starfsfólks og aðgengis ungmenna að námi víða um land.

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin lýsa óánægju minni með anda fjárlaganna og anda breytingartillagnanna sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Mér finnst gamaldags atvinnustefna vera þar á ferð, slæm byggðastefna og eins og ég lýsti hér áðan óljós menntastefna. Það sem er allra verst er að fjármunir fara til þeirra sem nægt hafa handa á milli frá þeim sem eru ekki aflögufærir.

Virðulegur forseti. Þetta finnst mér ógeðfelldur andi þessa helsta stefnuplaggs hæstv. ríkisstjórnar og læt ég það vera mín lokaorð.