143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[23:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið talaði ég um ríkisfjármál almennt. Mig langar að hefja seinni ræðu mína á svolítið svipuðum nótum enda er fjárlagafrumvarpið stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar. Í því sést hvernig ríkisstjórn ætlar að forgangsraða fjármunum og hafa áhrif á það samfélag sem við búum í. Að sjálfsögðu er margt í fjárlagafrumvarpinu sem eru fastir liðir og breytast lítið, geta tekið á sig hagræðingarkröfu eða fengið einhverja viðbót þannig að megnið af þessu er í nokkuð föstu formi. Það er þó hægt að hafa allmikil áhrif með því sem kunna að virðast smávægilegar breytingar. Ef við lítum til skattamála þá eru skattkerfi heillandi því þau segja okkur svo mikið um þau samfélög sem þau eru notuð í. Erum við með skilvirkt kerfi sem aflar með tiltölulega einföldum hætti tekna fyrir ríkissjóð? Erum við með kerfi sem stuðlar að tekjujöfnuði í landinu? Erum við með kerfi þar sem innheimt er nægilega mikið til að hægt sé að vera með öfluga almannaþjónustu?

Við jafnaðarmenn leggjum mikla áherslu á tekjujöfnunarkerfi í tilfærslunum en almannaþjónustan er gríðarlega mikilvægt jöfnunartæki, að við öll höfum aðgengi að þjónustu á sviði heilbrigðismála og menntamála, velferðarmála almennt og ýmissi annarri þjónustu óháð efnahag. Að við höfum öll jöfn tækifæri óháð því hverjar tekjur okkar eru. Að börn atvinnulausra geti stundað háskólanám jafnt sem börn þingmanna, svo að dæmi séu tekin. Þess vegna er alltaf svolítið hættulegt þegar skattalækkanir eru notaðar sem eitthvert tákn um að verið sé að huga betur að hag heimilanna. Við skulum bara fara yfir það hvernig þetta birtist okkur núna.

Við í Samfylkingunni sögðum að við vildum lækka tryggingagjald í atvinnulífinu, við teldum það mikilvægt, það væri forgangsverkefni. Til skattalækkana gæti komið þegar við værum komin með almennilegt kerfi til þess að afla auðlindagjalda af sjávarauðlindinni, af orkuauðlindinni og öðrum auðlindum. Það væru tekjustofnar sem væru algjörlega vannýttir og mjög mikilvægir til þess að efla íslenskt samfélag.

Ný ríkisstjórn hóf feril sinn á því að lækka veiðigjöldin og hv. iðnaðarráðherra hefur lýst sig andsnúna stefnu Landsvirkjunar sem er að hámarka arðinn af auðlindunum. Ýjað að því að það megi kannski endurskoða þá stefnu. Ég velti fyrir mér hverjum það á að gagnast. Á það að gagnast íslenskum almenningi að draga úr þeim tekjum sem ríkið getur aflað? En það var farið í að lækka veiðigjöld, lækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, lækka tekjuskatt á almenning. Við komum reyndar með breytingartillögu við það, eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni, af því að við teljum að hann skipti aðallega máli fyrir þá sem eru á þingmannalaunum en ekki fyrir t.d. kennara og hjúkrunarfræðinga og fleiri.

Svo erum við líka með tillögu til að mæta þeim sem lægstar hafa tekjurnar því að það er ekki tekið tillit til þeirra, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né tekjubandormum ríkisstjórnarinnar. Svo er ekki framlengdur auðlegðarskatturinn sem ríkasta fólkið á Íslandi hefur greitt frá hruni til að halda uppi almannaþjónustu og eins góðu samfélagi og okkur hefur verið unnt. Á þessu ári skilar sá skattur 9–10 milljörðum kr. Hugsið ykkur hvað það hefði verið gott að fá þá inn í ríkiskassann. Í staðinn er verið að lækka vaxtabætur. Það átti meira að segja að lækka barnabætur en það var hætt við það. Það var hætt við lengingu fæðingarorlofs. Húsaleigubætur eru ekki hækkaðar. Sjúklingaskattur er lagður á. Komugjöld á heilsugæslu og hjá sérgreinalæknum eru hækkuð og svo við vísum í fjáraukann þá voru ekki til peningar fyrir desemberuppbót, það er reyndar á fyrra fjárlagaári. Það var hætt við framlag í Starfsendurhæfingarsjóð af hálfu ríkisins. Skráningargjöld í háskóla eiga að hækka og RÚV og þróunaraðstoð og fleira verið skorið niður.

Þetta er nefnilega hin hliðin á skattalækkun. Ef ég á að svara fyrir mig þá held ég að mjög margir í millitekjuhópunum, sem hafa tekið á sig miklar byrðar eftir hrun, mundu afþakka 1.500–2 þús. kr. á mánuði ef þeir vissu að staðinn yrði vörður um almannaþjónustuna sem er sameign okkar. Ég held að sama fólk mundi líka vilja að veiðigjöld væru lögð á með sama hætti og gert var og að auðlegðarskattur væri látinn halda sér.

Ég ræddi hér mikið um þróunaraðstoð en framlög til hennar er verið að lækka. Það birtist ágæt grein eftir Stefán Inga Stefánsson hjá UNICEF sem harmaði mjög þennan niðurskurð og var hissa á því að liðir sem hafa verið í forgangi eins og UNICEF, UN Women, Alþjóðabankinn og háskólar Sameinuðu þjóðanna tækju á sig niðurskurð. Það var þannig að í fjárlagafrumvarpinu var lögð til örlítil aukning á milli ára, verðlagsuppfærsla á alla liði í þróunaraðstoð. Hún átti að verða svipuð og á síðasta ári og ekki átti að fylgja áætlun um þróunarsamvinnu, en það var þó ekki gengið lengra en það. En núna fyrir 2. umr., þegar þessar stofnanir og allar stofnanir sem eru á fjárlögum voru búnir að sjá fjárlagafrumvarpið, breytist allt, áætlanir sem verið er að gera um hvernig eigi að nýta peningana. Í þróunaraðstoð eru þeir notaðir til að bæta lífskjör fátækasta fólks í heimi en í öllum stofnunum ríkisins er unnið mikilvægt starf.

Þessi geðþóttaniðurskurður er sagður vera liður í breyttri forgangsröðun. Það er meira að segja gengið svo langt að segja að niðurskurður þróunarsamvinnunnar sé til að fjármagna heilbrigðisþjónustu. Þarna eru hundruð milljóna teknar úr starfi sem lýtur að því að efla heilbrigði kvenna og barna og mennta fólk og hjálpa því til sjálfshjálpar, en auðlegðarskattur upp á 9–10 milljarða kr. kom náttúrlega ekki til greina. Við gátum ekki ætlast til þess að þeir sem eiga hvað mestar eignir á Íslandi hefðu farið að bera það eða tekið ábyrgð á heilbrigðiskerfinu okkar. Ekki það að sá hópur eigi einn og sér að taka ábyrgð en hann getur vel tekið ábyrgð umfram aðra þegar við búum við þær aðstæður að ríkissjóður er skuldum vafinn og við þurfum að ná niður fjárlagahallanum til þess að grynnka á skuldafeninu. Það erum við öll sammála um.

Herra forseti. Í fjárlagaumræðu er eðlilega meiningarmunur á milli flokka og það getur verið mjög mikill meiningarmunur um það hvernig eigi að nýta fjármuni en þegar geðþóttaákvarðanir fara að verða áberandi í fjárlagagerð er það er óheppilegt. Mér finnst það óþægilegt. Það kann ekki góðri lukku að stýra og það eflir ekki virðingu fyrir þinginu þegar hér er skorið niður eftir geðþótta.

Ég ræddi í síðustu ræðu minni um 5% niðurskurðinn í Stjórnarráði milli umræðna. Það er aðhaldskrafa í fjárlagafrumvarpinu sem eðlilegt er í árferði sem þessu en það bætast við 5%. Mér finnst þetta vera nett skilaboð um að fjárveitingavaldið sé óútreiknanlegt og fólk skuli passa sig. Það geti komið sér illa ef menn geri ekki eins og ætlast er til, þá sé bara skorið niður. En kannski skil ég ekki þennan lið í breyttri forgangsröðun. Hann er ekki skýrður vel en það eru fleiri liðir þar undir, það eru fjölmiðlanefnd, sendiráð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð, Orkustofnun, Lögregluskóli ríkisins, Jafnréttisstofa, Bankasýsla ríkisins, Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun. Þar er niðurskurður vegna breyttrar forgangsröðunar. Svo er fjöldinn allur af öðrum fjárlagaliðum og stofnunum þar sem er ekki breytt forgangsröðun. Það kemur ekkert fram hvað þessi breytta forgangsröðun felur í sér.

Jafn óánægð og ég er með að þetta fjárlagafrumvarp sýni viðsnúning á stefnu varðandi vöxt íslenska hagkerfisins, viðsnúning á stefnu þar sem við jukum jöfnuð á Íslandi, nú á að draga úr honum aftur, viðsnúning á því að allir geti komist í framhaldsskóla, óski þeir þess, viðsnúning á vinnumarkaðsaðgerðum og á mjög mörgum sviðum, þá er það pólitískt deiluefni. Hitt er alvarleg þróun ef fjárveitingavald er misnotað og því beitt af geðþótta. Þannig eigum við ekki að haga okkur á Alþingi. Það dregur enn frekar úr virðingu okkar og það skapar hættu fyrir lýðræði á Íslandi.