143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[23:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 og ég ætla í seinni ræðu minni að koma inn á nokkur atriði í þeim umræðum. Ég ætla aðeins að koma inn á framhaldsskóla landsins. Það hefur komið fram í umræðum að þeir eru ekki vel staddir og rekstrarstaða þeirra er ekki góð. Mun meira fjármagn þyrfti inn í þá svo að þeir geti haldið eðlilegum dampi. Ég hef vissar áhyggjur af því að framhaldsskólarnir muni ekki geta tekið á móti nemendum með sama hætti og þarf að vera. Þeir hafa verið að opna á að taka inn fólk vegna ýmissa vinnumarkaðsaðgerða og er það vel. Ég þekki sjálf fjölda dæma um ungt fólk á atvinnuleysisskrá sem hefur farið inn í framhaldsskólana aftur og það hefur virkilega komið því aftur á rétta braut við að fylgja eftir hugðarefnum sínum og áhuga og finna sína hillu í lífinu.

Ég hef líka áhyggjur af því hvað það þýðir fyrir framhaldsskólana þegar þetta mikið fjármagn vantar inn í þeirra starf, þ.e. að það bitni á verknáminu. Það er dýrara nám og það hefur alltaf verið varnarbarátta að halda úti góðu verknámi í framhaldsskólunum. Nú hef ég miklar áhyggjur á því að það geti bitnað á verknámi ef ekki verður komið meira til móts við framhaldsskólana með fjármagn. Þeir hafa þurft að spara og halda að sér höndum undanfarin ár eins og aðrar stofnanir hjá ríkinu. Við megum ekki draga svo úr starfsemi þar að það komi í bakið á okkur síðar meir, þ.e. að framhaldsskólarnir geti ekki tekið nemendur inn og séu ekki færir um að vera í öflugu samstarfi við Vinnumálastofnun um vinnumarkaðsaðgerðir þegar eftir því er leitað.

Ég vil líka koma inn á sameiningu heilbrigðisstofnana. Gerð er krafa um sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi, á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Komið hafa fram áhyggjur heimamanna af því að ekki sé hlustað nægjanlega vel á raddir þeirra, bæði hvað það varðar hvernig gengið verður að þeim sameiningum; að heimamenn séu hafðir með í ráðum, að þetta sé unnið með heimamönnum en komi ekki ofan frá að menn séu skikkaðir til að sameina kannski þvert á alla skynsemi. Þegar ég nota orðalagið „þvert á alla skynsemi“ þá tek ég Vestfirði sem dæmi. Öll heilbrigð skynsemi segir manni að ekki er tímabært að horfa til sameininga heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum við þær aðstæður sem uppi eru. Þar sem fjallvegir eru lokaðir fimm mánuði á ári, stundum minna, stundum meira, á milli svæða, á milli norðurhluta Vestfjarða og sunnanverðra Vestfjarða, er engin skynsemi í því að steypa þessu öllu undir einn hatt. Það kallar á handarbakavinnu og kannski aukinn kostnað á öðrum stöðum sem menn sjá ekki fyrir og óánægju heimamanna. Við megum ekki draga svo úr þessari þjónustu. Við vitum að heimamenn treysta því að það sé grundvöllur fyrir byggð að þessar heilbrigðisstofnanir sinni hlutverki sínu vel og að fólk geti treyst því að þær séu öflugar í sínu nærumhverfi.

Enda hafa sveitarstjórnarmenn á öllum Vestfjörðum sammælst um, hvar í flokki sem þeir standa, að mótmæla því harðlega að það verði bara ein heilbrigðisstofnun á Vestfjörðum. Það er ekki tímabært. Ég vil ekkert segja um að þeir tímar komi ekki að rétt sé að fara út í sameiningu en þá verða menn að hysja upp um sig buxurnar hvað varðar samgöngumál á Vestfjörðum og fara að koma þar á samgöngum sem falla undir 21. öldina. Þá skal ég vera tilbúin að ræða um sameiningar á mörgum sviðum því að ég er yfir höfuð hlynnt sameiningu þegar hún er unnin með fólki og þegar menn sjá árangur af henni, að það séu markmið, ekki bara einhver krónusparnaður heldur að það sé líka gott fyrir fólk sem í hlut á að verið sé að sameina, að það komi eitthvað gott út úr því og bætt þjónusta og efling í kjölfarið fyrir allra.

En þá eru það vinnumarkaðsúrræðin sem ég hef miklar áhyggjur af. Ég var formaður verkalýðsfélags í sjávarplássi á árum áður, var það í ein 16 ár, og tel mig þekkja vinnumarkaðsúrræði frá mörgum hliðum. Ég veit hve það skiptir gífurlega miklu máli að fólki sé mætt í þeim aðstæðum sem það er þegar það lendir í að missa atvinnu sína og þarf á því að halda að hafa stuðningskerfi í kringum sig til að geta aftur fótað sig í lífinu.

Það hefur komið fram að verið er að skera niður hjá Vinnumálastofnun — blóðugur niðurskurður, verið að tala um 340 milljóna kr. niðurskurð á þeim bænum. Það bitnar harkalega á vinnumarkaðsaðgerðum og líka á fólki sem vinnur hjá þessari stofnun. Ég hef nefnt það áður að staður eins og Skagaströnd, sem verið hefur með útibú frá Vinnumálastofnun varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð, verður harkalega fyrir þessum niðurskurði; 5% vinnufærra manna missa þar vinnuna og það er stórt högg fyrir byggðarlagið. Það er samsvarandi því að 6 þús. manns mundu missa vinnuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Auðvitað er slæmt að fólk missi vinnuna hvort sem það býr í Reykjavík eða á Skagaströnd eða hvar sem er. En menn verða að vanda sig þegar farið er út í uppsagnir og þegar verið er að draga saman seglin. Varðandi Vinnumálastofnun tel ég mjög óskynsamlegt að fara svona harkalega í niðurskurðinn. Við vitum að þetta þenst út þegar atvinnuleysi er mikið og sem betur fer höfum við verið að ná atvinnuleysi niður á undanförnum árum, komin niður í 4–5% sem er samt allt of mikið. Við þurfum virkilega áfram á þessum vinnumarkaðsúrræðum að halda. Og hverjar geta afleiðingarnar orðið? Við getum fengið þær í bakið á öðrum vettvangi ef við grípum ekki það fólk sem lendir í atvinnuleysi og styðjum það áfram. Ýmis félagsleg vandamál geta sprottið upp úr því að ganga svo hart í þessum niðurskurði sem kostar samfélagið sitt, bara á öðrum enda.

Þó að eðlilega þurfi að draga úr starfsemi þegar atvinnuleysi minnkar, það er bara eðlilegasti hlutur, er ekki hægt að fara svona harkalega af stað enda hafa stéttarfélögin haft uppi harða gagnrýni gagnvart þessari aðgerð. Ég trúi ekki öðru en að þetta verði eitthvað endurskoðað.

Varðandi svona starfsemi sem er úti um land — ég kom inn á það áðan, útibú frá stofnunum eins og Vinnumálastofnun og Fæðingarorlofssjóður á Hvammstanga — þá töldu menn í upphafi að ekki væri hægt að útvista svona stofnunum út á landsbyggðina langt úr alfaraleið. En á Skagaströnd hefur það virkilega sýnt sig að þetta gengur upp. Þar hefur hæft fólk verið ráðið til starfa og sýnt hefur verið fram á að hægt er að færa verkefni út um allt land. Tæknin býður upp á það. Það er ekkert lengra frá Skagaströnd til Reykjavíkur en frá Reykjavík til Skagastrandar og það á við um allt landið. Við verðum bara að vanda okkur og halda áfram að horfa á að hægt er að vinna verkefni vítt og breitt um landið. Þegar skera þarf niður — og mér finnst allt of hart gengið fram varðandi þetta — verða menn líka að vanda sig svo að það bitni ekki svona harkalega á ákveðnum stöðum, að verið sé að höggva þetta stórt skarð í lítið samfélag sem má ekki við því miðað við hvernig ástandið hefur verið að þróast í gegnum árin.

Það sem hefur staðið upp úr í þessari umræðu er það að hæstv. ríkisstjórn hefur því miður verið að taka algjöra U-beygju varðandi jöfnuð í samfélaginu. Ég hef miklar áhyggjur af því hvert við stefnum. Ég hef áhyggjur af stöðu láglaunafólks í þessu landi. Ég hef áhyggjur af stöðu atvinnulauss fólks í þessu landi. Ég hef áhyggjur af stöðu ungs fólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og er með börn á framfæri. Þetta er allt fólk sem á það skilið að samfélagið standi með því. Þetta er framtíð okkar og við verðum að byggja upp þannig velferðarkerfi að fólk geti lifað sómasamlegu lífi í landinu. Að það verði ekki aukin misskipting eins og við vorum að þróast í hér á árum áður og fengum svo hrunið í hausinn. Síðasta ríkisstjórn lagði það af mörkum að breyta samfélagsgerðinni á þann veg að koma á auknum jöfnuði með þrepaskiptu skattkerfi og leggja mikla áherslu á heilbrigðismál, menntun og framfarir varðandi nýsköpun og tækniþróun.

Núverandi ríkisstjórn á að henda þann bolta á lofti og nýta það sem vel hefur verið gert og hefur borið árangur. Annað er arfavitlaust. En þó að við Vinstri græn séum komin í stjórnarandstöðu ætlum við ekki að leggja árar í bát heldur ætlum við að halda á lofti stefnu okkar og okkar áherslum eins og við höfum gert í þessari umræðu. Við ætlum líka að koma með breytingartillögur við þetta fjárlagafrumvarp og þær breytingartillögur koma inn á marga þætti. Eins og hér hefur verið nefnt viljum við mæta láglaunafólki í landinu, atvinnulausu fólki með desemberuppbót og koma á jöfnun búsetuskilyrða. Við viljum fá auknar tekjur af auðlindinni okkar og við viljum aukna þróunaraðstoð og ýmsar jöfnunaraðgerðir sem gera samfélag okkar betra.

Við skulum vona að ríkisstjórnin sjái að sér, að þær umræður sem hér hafa staðið undanfarna daga skili því að ríkisstjórnin sjái að þó að hún hafi góðan meiri hluta þurfi hún að taka tillit til annarra sjónarmiða. Minni hlutinn á fullan rétt á því að hafa áhrif á niðurstöðu og menn eru ekki einir í heiminum. Taka þarf tillit til margra sjónarmiða ef við eigum að búa í sátt og samlyndi sem við viljum eflaust öll. Þá þurfa allir að rétta fram sáttarhönd og ná niðurstöðu sem hægt er að búa við. Þó að meiri hluti hverju sinni sé í þeirri stöðu að geta komið grundvallarstefnu sinni fram þurfa menn alltaf að slaka aðeins á í kröfugerð sinni.