143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni, ekki síst fyrir atvinnulausa og sjúklinga, að hér hefur tekist samkomulag um þinglok sem felur í sér breytingar á allra verstu tillögunum í fjárlögunum.

Ég þakka öllum þeim sem komu að því að skapa þann þrýsting sem nauðsynlegur var til að ná fram þessum breytingum. Ég vil líka nota tækifærið til að vekja athygli á öðrum mikilvægum þætti í þinglokasamningnum. Það eru tímamót að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi samþykkja að skoða gjaldtöku á nýjar tegundir í þverpólitískri nefnd. Þar er auðvitað átt við makrílinn. Tekjur af því eiga að geta skilað sér þegar á árinu 2014. Það er mikilvægt að við náum þjóðarsátt um gjaldtöku af nýjum tegundum í lögsögu Íslands. Þegar makríllinn er annars vegar eiga ekki við nein sjónarmið um að menn hafi skuldsett sig til kvótakaupa í þeirri tegund. Íslenskur almenningur á rétt á arðinum af makríl, óskiptum auðlindaarði, í ríkissjóð til þess að unnt sé að efla velferð, bæta kjör og létta byrðar almennings.

Ég heiti á þingmenn að vinna að þessu verkefni af heilindum í þeirri nefnd sem falið hefur verið verkefnið með þinglokasamningnum í gær.