143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Það ber að fagna samkomulaginu sem náðist milli stjórnarflokkanna og minni hlutans í gærkvöld um þinglok. Það er sérstaklega gleðilegt að náðst hafi samkomulag um stór deilumál eins og desemberuppbótina og komugjöld á heilbrigðisstofnanir.

Hafandi sagt þetta verð ég að segja að áhrifin á fjárlög eru kannski ekki eins góð en mikilvægt er að þau séu réttum megin við núllið. Halli á fjárlögum er óásættanlegur. Varðandi desemberuppbótina hefur verið farin sú leið undanfarin ár að greiða þeim sem eru á atvinnuleysisbótum þessa uppbót. Þetta er heimildarákvæði, ekki skylda. Auðvitað viljum við öll að atvinnulausir hafi það sem allra best um jólin eins og aðrir landsmenn. Það hlýtur hins vegar að þurfa að setja spurningarmerki við að farin skuli sú leið að greiða þeim desemberuppbót, ekki síst vegna eðlis þeirrar uppbótar. Desemberuppbót er samningsbundin bónusgreiðsla sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu. Þetta er greiðsla sem er greidd samkvæmt starfshlutfalli og starfstíma hverju sinni. Desemberuppbótin er misjafnlega há og fer það eftir samningum viðkomandi stéttarfélags eða hvort viðkomandi vinnur hjá ríki eða sveitarfélagi. Þar sem þetta er hugsað sem uppbót fyrir unnin störf verður að spyrja af hverju þetta er látið ná yfir atvinnuleitendur. Hvað með aðra hópa sem fá ekki slíka uppbót? Af hverju fá þeir ekki desemberuppbót?

Fallið er frá fyrirhuguðum komugjöldum á sjúkrastofnanir. Alls kyns komugjöld hafa verið til staðar í heilbrigðiskerfinu og rukkað hefur verið fyrir þetta og hitt í kerfinu. Þetta er ógagnsæ gjaldtaka. Það kostar til dæmis þúsundir króna að fara með sjúkrabíl. Í umræðum hér á þingi er oft látið eins og sjúklingar á Íslandi þurfi ekkert að greiða. Það er fjarri lagi og það vita allir. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hins vegar sú hversu mikið við getum lagt á þá. Hvað er sanngjarnt að hafa þessa upphæð háa? Hvort hún kallast komugjöld eða eitthvað annað er algjört aukaatriði.