143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér náðist í gær samkomulag um þinglok og þau mál sem þingheimur ætlar að afgreiða fyrir jólaleyfi. Ég ætla ekki að segja hér að það samkomulag hafi glatt mig neitt sérstaklega vegna þess að mér finnst ekki, þegar við erum á síðustu metrum í vinnu eins og fjárlagavinnu, að við eigum að vera að semja um krónur og aura til að geta lokið þingstörfum á réttum tíma. Mér finnst þetta eiga að kenna okkur í fyrsta lagi að aðkoma að fjárlagafrumvarpi þarf kannski að vera með öðrum hætti en hún hefur verið, við ættum kannski í upphafi að vera meira sammála um ákveðnar línur og við ættum kannski í vinnunni að byrja fyrr að velta fyrir okkur þeim áherslum sem við viljum hafa hér, hvort heldur er meiri hluti eða minni hluti.

Það að komast að samkomulagi um þinglok fyrir jól í krónutölum, fyrirgefið, virðulegur forseti, hugnast mér einhverra hluta vegna ekki. Ég kýs að við lærum af þessari vinnu og gerum þetta öðruvísi þegar kemur að vordögum og þegar kemur að fjárlögum næsta árs.