143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Allsherjarnefnd hefur fjallað um málið, við höfum reyndar haft stuttan tíma til þess en engu að síður tókst mikið og gott samstarf í nefndinni eins og venjulega og við höfum afgreitt málið út úr nefndinni með ákveðnum breytingum.

Nokkrar athugasemdir komu fram við frumvarpið. Í fyrsta lagi sú frá þeim sýslumönnum sem framfylgja munu þessu, að dagsetningin væri ekki heppileg vegna réttarhlés. Við leggjum því til þá breytingu, að í stað þess að miða við 1. júlí 2014 verði miðað við 1. september 2013 í báðum tilfellum, sem vitnað er til í lagatextanum.

Við meðferð frumvarpsins komu auk þess fram þau sjónarmið frá kröfuhöfum að nauðsynlegt væri annars vegar að setja aukin skilyrði fyrir því að nauðungarsölu yrði frestað og á hinn bóginn að það þyrfti að víkka þetta út til þeirra tilfella þegar nauðungarsala hefur þegar farið fram en málin eru enn í samþykkisfresti. Við tókum það til athugunar og komumst að þeirri niðurstöðu að þar sem frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna og markmið frumvarpsins er að gefa skuldurum tíma til að leggja mat á aðgerðirnar sem fyrirhugaðar eru og þau áhrif sem þær munu hafa á skuldastöðu hvers einstaklings, sé ekki rétt að takmarka skilyrðin fyrir frestun nauðungarsölunnar. Við bentum jafnframt á að nú sé verið að vinna að lagalegum útfærslum á þessum aðgerðum.

Hins vegar teljum við rétt að koma til móts við þau sjónarmið að rétt sé að koma til móts við þá aðila sem eru með húsnæði sitt í þeirri stöðu að samþykkisfrestur er að líða og því gerum við breytingartillögu við staflið b þess efnis að hafi uppboði verið lokið en boð ekki samþykkt fyrir gildistöku laganna sé sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola en með samþykki gerðarbeiðendanna að fresta því að taka afstöðu til boðsins fram yfir 1. september 2014. Hér er því um að ræða tvær breytingartillögur.

Ég vil jafnframt minnast á að Samband íslenskra sveitarfélaga kom með þær athugasemdir að málið hefur neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaganna að því leyti að lögveðskröfur munu fyrnast sem nemur þessum fresti. Jafnframt komu fram þau sjónarmið sem nefndin tekur undir, að kostnaðaráhrifin á fjárhag sveitarfélaganna höfðu ekki verið greind þegar frumvarpið var unnið. Við tökum undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að frumvarp séu kostnaðarmetin ef fyrirsjáanlegt er að þau muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin.

Herra forseti. Við töldum rétt að afgreiða málið með þessum hætti frá okkur. Með lögum nr. 23/2009 var nauðungarsölu frestað um ákveðinn tíma á síðasta kjörtímabili. Það frumvarp sem hér liggur fyrir byggir á þeirri lagaframkvæmd. Við teljum rétt að taka fram varðandi þetta frumvarp að sömu skilyrði gilda gagnvart þeirri frestun sem hér er lögð til og í þeim lögum; gerðarþoli eða gerðarþolar þurfa sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og húsnæði sem um ræðir þarf að vera íbúðarhúsnæði samkvæmt nánari skilgreiningu.

Undir nefndarálitið rita allir þeir nefndarmenn sem sátu í allsherjarnefnd á þessum fundi, þ.e. sú sem hér stendur, hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Sigurður Páll Jónsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Jafnframt ritar hv. þm. Guðbjartur Hannesson undir álitið með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Fyrirvari hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar lýtur að því að hann telur það vera mikilvægt að einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota, lent í nauðungarsölu, fjárnámi eða öðrum skuldalúkningarúrræðum, fái sem fyrst heimildir í lögum til endurupptöku sinna mála, því að samkvæmt nýlegri dómaframkvæmd, samanber hæstaréttardóm nr. 620/2013, virðast slíkir gjörningar vera óafturkræfir án tillits til þess hvort grundvöllur þeirra sé lögmætur. Þetta er fyrirvari hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar.

En nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Ég þakka enn og aftur fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf í nefndinni.