143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[11:48]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er farið í endurskoðun laga um stimpilgjald. Ef mig rekur rétt minni til eru stimpilgjöld bráðabirgðaráðstöfun frá upphafi síðustu aldar sem hafa lifað í rúmlega heila öld og með þessari einföldun væri kannski hægt að vinna á þessum gjaldstofni og lækka þessar tekjur í einföldun sinni.

Í nefndarálitinu kemur fram skýr fyrirvari minn um að ég telji að yfirfærsla innan samruna eða við skiptingu fari gegn öllum eðlilegum reglum um samruna og skiptingu. Í skattalögum er ekki gert ráð fyrir því að samruni eða skipting leiði af sér sérstaka gjaldtöku, en það gerist með þessu frumvarpi þvert á dóma Hæstaréttar um slíkt. Ég vísa til þess hér og nú að sú skoðun mín hefur heldur eflst að fyrirtæki sem sameinast verði ekki gjaldskyld á neinn hátt og fyrirtæki sem er skipt upp verði heldur ekki gjaldskyld. Þetta er hin eðlilega hugsun varðandi sameiningu og skiptingu.

Að öðru leyti styð ég frumvarpið og breytingartillögur. Ég tel að þetta sjónarmið komi fram. Lífið heldur áfram. Sennilega verður þessi lagabálkur endurskoðaður fyrr en síðar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.