143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það róar mig að ég er ekki á sömu skoðun og hv. síðasti ræðumaður því að ef við förum að vera mjög sammála í skattamálum ætti það að vera varúðarmerki fyrir mig. Ég tel að þessi skattlagning sé allt of mikil og að stimpilgjaldið sé úreltur skattstofn sem hefði fyrir löngu átt að leggjast af, en með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs fellst ég á þetta með miklum semingi. Það er mikil einföldun í þessu frumvarpi að hverfa frá skattlagningu á lánsskjöl. Það eykur líka samkeppni milli lánastofnana. Ég vona að þegar lántökugjaldið situr eitt eftir muni það ekki vera eins sjálfvirkt og það hefur verið hingað til, það hefur verið mjög sjálfvirkt í skjóli stimpilgjaldsins. Nú þegar stimpilgjaldið er horfið og eftir stendur nakið lántökugjaldið hjá stofnunum, sem er allt of hátt að mínu mati, munu þeir vonandi í samkeppni neyðast til að lækka það og færa í eðlilegt horf.

Það sem ég er á móti er það sem situr eftir af stimpilgjaldinu, sem er hækkun á eignatilfærslum. Ég tel að atvinnulífið og allt efnahagslífið byggi mjög mikið á því að eignatilfærslur séu liprar. Þegar búið er að leggja á svona mikla skatta, 1,6% á fyrirtæki og 0,8% á einstaklinga, getur það hamlað því mjög að eignatilfærsla eigi sér stað. Ég tel að mjög brýnt sé fyrir hagkvæmni atvinnulífsins að menn geti skipt um eignir án mikilla tilfæringa.

Það eiga eflaust eftir að koma fram merkilegar niðurstöður þegar menn fara að líta á eignatilfærslur í alls konar tilfellum. Þótt nefndin hafi kafað djúpt ofan í alls konar mögulegar og ómögulegar eignatilfærslur er þjóðfélagið alltaf flóknara, reikna ég með, þannig að það munu örugglega koma upp undarleg dæmi þar sem um er að ræða tvísköttun o.s.frv.

Ég vonast til og mun stefna að því þegar lag gefst til þess að fara að lækka skatta af viti að þetta verði einn fyrsti skatturinn sem lendir í þeim niðurskurði.